144. löggjafarþing — 133. fundur,  19. júní 2015.

Jafnréttissjóður Íslands.

803. mál
[11:08]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Fyrir tæpum 160 árum fæddist á Haukagili í Vatnsdal kona sem átti eftir að marka fyrstu sporin í réttindabaráttu kvenna á Íslandi. Bríetar Bjarnhéðinsdóttur er minnst fyrir margra hluta sakir en í dag langar mig, með leyfi forseta, að biðja þingheim að fylgja mér vestur í Húnavatnssýslu árið 1872 þar sem Bríet skrifaði hugsanir sínar á blað, þá 16 ára gömul. Þessar hugsanir sýndi hún engum næstu 13 árin þar til þær birtust í Fjallkonunni árið 1885, undir dulnefninu Æsa.

„Það er næsta eftirtektarvert, hversu karlmenn halda öllu frelsi kvenna og réttindum í helgreipum […] En þrátt fyrir öll rök sín og allar sínar mótbárur, geta þeir þó aldrei fært gildar ástæður fyrir þeirri skoðun sinni, að konur séu óhæfari til hvers konar framfara og menntunar en karlar, eða að þær eigi minni rétt og heimtingu til þess en þeir.“

„En því meiri furðu gegnir það, hve fáir hafa fundið köllun hjá sér til að rita um það málefni, sem þó má efalaust kallast eitt af hinum mikilvægustu, en það er um menntun og réttindi kvenna. Og þó getur naumast neinum blandast hugur um, að þetta mál má heita grundvöllur allrar sannrar menntunar og framfara.“

„… konan er sköpuð til þess að gegna sömu skyldum og njóta sömu réttinda og karlmaðurinn, að svo miklu leyti sem hæfileikar hennar og vilji leyfa. Hún er jafningi bræðranna og félagi mannsins.“

Þannig voru hugsanir hinnar 16 ára gömlu Bríetar Bjarnhéðinsdóttur tveimur árum áður en Íslendingar fengu stjórnarskrá. Fyrir henni átti meðal annars síðar að liggja að stofna Hið íslenska kvenfélag, vera formaður Kvenréttindafélags Íslands um árabil, gefa út Kvennablaðið, verða ein fjögurra fyrstu kvenna kjörin í bæjarstjórn Reykjavíkur og fyrsta konan sem bauð sig fram til Alþingis eftir að konur fengu kosningarrétt og kjörgengi, svo eitthvað sé nefnt.

Íslendingar eiga Bríeti og öðrum sporgöngukonum og -körlum þessa tíma mikið að þakka.

Hugsjónin um jöfn réttindi kynjanna sem birtist í verkum þeirra hefur lifað og dafnað á Íslandi, styrkst og vaxið svo mjög að nú, 100 árum eftir að Ísland varð eitt fyrsta landið í heiminum til að veita konum kosningarrétt, er landið í efsta sæti í alþjóðlegum samanburði um jafnrétti kynjanna. Sá árangur var aldrei sjálfgefinn, heldur hefur náðst vegna ötullegrar og ódrepandi baráttu fólks af báðum kynjum alla tíð síðan.

En þrátt fyrir það er fullu jafnrétti ekki náð í íslensku samfélagi. Betur má ef duga skal. Sú hugsjón sem hin 16 ára Bríet Bjarnhéðinsdóttir setti á blað í íslenskri sveit fyrir 143 árum þarf áfram að brenna með íslenskum almenningi og stjórnvöldum. Við megum aldrei veita afslátt af hinni sjálfsögðu kröfu um jöfn mannréttindi allra þegna samfélagsins. Aldrei.

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt fyrir mig, sem þingmann Framsóknarflokksins, að rifja það upp að jafnréttissjóðurinn sem nú er í forsætisráðuneytinu var settur á fót í tilefni af 30 ára afmæli kvennafrídagsins í tíð Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra. Sá sjóður var settur á fót á grundvelli ríkisstjórnarsamþykktar. En hér erum við að fjalla um tillögu sem sett er fram með aðkomu allra flokka sem fulltrúa eiga á Alþingi. Það er vel og undirstrikar um leið hve mikilvægt málefnið er. Auk þess fer vel á því að sjóðurinn heyri undir forsætisráðuneytið. Með því er lögð þung áhersla á að jafnréttismál eru í raun málefni þess ráðuneytis og allra annarra ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, eins og reyndar Alþingis og dómstóla og allra opinberra stofnana.

Það er einnig mikilvægt að við látum gott af okkur leiða á sviði jafnréttismála í öðrum heimshlutum. Land sem nýtur þess heiðurs að vera álitið fyrirmynd í þessum málaflokki hefur skyldu til að nýta þá stöðu til að hjálpa öðrum.

Hæstv. forseti. Ég er sannfærð um að hinn nýi og öflugi Jafnréttissjóður Íslands eigi eftir að verða mikil lyftistöng og styrkja okkur til áframhaldandi forustu í þessum málaflokki, vera okkur vopn í baráttu sem aldrei má ljúka.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir var opinberlega baráttukona fyrir réttindum kvenna í 30 ár áður en konur fengu kosningarrétt og kjörgengi 19. júní 1915. Á þeirri baráttu þreyttist hún aldrei og ekki heldur þeirri köllun að vekja konur og karla til lags við þennan réttsýna málstað. Bríet lauk grein sinni í Fjallkonunni meðal annars á þessum orðum, ákalli sem á eins vel við í jafnréttisbaráttu dagsins í dag og fyrir 100 árum, með leyfi forseta:

„Það er vonandi, að menn taki nú þetta mál til alvarlegrar umhugsunar áður langt líður, og að það verði ekki aðeins hinir einstöku menn, sem hingað til hafa hafið máls á því, heldur almenningur.“

Góðir Íslendingar, konur og karlar, stelpur og strákar: Til hamingju með daginn!