144. löggjafarþing — 133. fundur,  19. júní 2015.

Jafnréttissjóður Íslands.

803. mál
[11:33]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Forseti Íslands. Íslenskar konur. Til hamingju með daginn. Við stöndum á stórum og merkilegum tímamótum og fögnum því að á þessum degi fyrir 100 árum kaus þorri íslenskra kvenna í fyrsta skipti.

Tíminn og baráttan hefur fært okkur miklar breytingar og í dag státum við Íslendingar okkur af því að vera fremst meðal þjóða á mælikvörðum sem mæla jafnrétti kynjanna. Hornsteinninn að þeim árangri var lagður þennan dag af sannkölluðum brautryðjendum, ömmum okkar og mæðrum sem tóku slaginn fyrir okkur sem á eftir komum. Þeim eigum við, bæði konur og karlar, allt að þakka því að þær breyttu samfélaginu til hins betra og skiluðu af sér bættu búi fyrir okkur hin að lifa í.

Við eigum þeim það að þakka að menntun kvenna og möguleikar í þeim efnum eru í dag til jafns við karla.

Við eigum þeim það að þakka að það er meginreglan í samfélagi okkar að foreldrar séu jafnir í uppeldi barna sinna og verða þannig jafn verðmætir starfskraftar og þátttakendur í samfélaginu öllu.

Ég og systur mínar hér eigum þeim það að þakka að við höfum staðið á Alþingi Íslendinga, kasóléttar að ræða ýmis þjóðþrifamál. Það hefði einhvern tímann þótt í hæsta máta óviðeigandi og hreinlega óþarfi.

Við eigum þeim öllum svo ótal margt að þakka.

Jafnréttisbaráttan var síður en svo átakalaus og ekkert við hana kom sjálfkrafa líkt og hvert annað náttúrulögmál. Eins og öll önnur mannréttindabarátta var hún erfið og það þurfti mikla seiglu til. Konur sem börðust fyrir jöfnum rétti kynjanna voru smánaðar og það var kerfisbundið talað niður til þeirra. Það þótti eðlilegt og í lagi. Sé grúskað aðeins lítillega í heimildum um samfélagsmál má finna þar ótrúlegustu ummæli sem karlar létu í ljós þegar þeir tjáðu sig um kröfu kvenna til jafns réttar á við þá sjálfa.

Margt hefur breyst til hins betra en í jafnréttisumræðu samtímans má alltaf við og við heyra kunnuglegt stef sem virðist fylgja okkur úr fortíðinni um að nú sé þetta komið gott. Staðan er þó þannig að enn eru konur smánaðar. Ungar stúlkur eru kerfisbundið lítillækkaðar í net- og samfélagsmiðlum í dag með hefndarklámi. Þeirra jafnréttisbarátta er þeim eldri stundum torskiljanleg, en hún snýst enn þá um þau grundvallarréttindi að hafa frelsi til að vera eins og hver vill og vera varin gegn því að vera niðurlægð og kúguð til hlýðni.

Virðulegi forseti. Á Íslandi í dag má sem betur fer finna konur sem segjast aldrei hafa upplifað kynjamisrétti. Þær þekkja það einfaldlega ekki á eigin skinni. Sigurinn gæti ekki verið stærri fyrir baráttukonur fortíðarinnar. Það er afrakstur þeirra miklu vinnu og fórnfýsi að á Íslandi samtímans séu til konur sem kannast ekki við mismunun á grundvelli kyns síns. Um leið og ég fagna þeim áfanga innilega er ekki laust við að ég óttist á sama tíma værukærð í jafnréttismálum, værukærð sem mallar svona ómeðvitað með okkur vegna þess að við höldum jafnvel að heimurinn speglist aðeins í okkar eigin upplifunum og stöðu.

Vöndum okkur við að falla ekki í þá gryfju sjálfhverfunnar og verum vel á verði. Í gegnum tíðina hefur kvennabaráttan og hugmyndafræðin á bak við hana einmitt haft þá sérstöðu að geta sett sig í spor mismunandi hópa og því þarf að halda á lofti og halda áfram. Sem leiðandi land í jafnrétti kynjanna ætti Ísland að gera jafnrétti að einni af útflutningsvöru sinni. Alveg eins og við höfum miðlað af reynslu okkar í þróunarríkjum, t.d. hvað varðar fiskveiðar, eigum við að vera óhrædd og leiðandi í framþróun jafnréttis í öðrum ríkjum. Til að sú leiðsögn beri árangur þurfa ráðamenn hverju sinni að setja sig vel inn í sögu kvennabaráttunnar þar sem þeir kynnast því að jafnrétti hefur ekki verið náð sjálfkrafa líkt og um náttúrulögmál sé að ræða.

Mikilvæg skref hafa verið tekin fram á við en við Íslendingar höfum líka gerst sek um að bakka þegar við sofnum á verðinum. Við erum síður en svo komin á endastöð, enn er ótal margt óunnið og við berum ábyrgð á því að skila af okkur enn betra samfélagi en við tókum við.

Vinna stórra kvennastétta er enn í dag metin minna en vinna karlastétta.

Konur eru ekki jafnar körlum í ábyrgð á mikilvægum sviðum atvinnu- og mannlífs okkar.

Við þurfum markvisst að berjast gegn staðalmyndum kynjanna því að þær eru sannarlega heftandi fyrir bæði kynin.

Kynbundið ofbeldi er köld staðreynd sem hverfur ekki af sjálfu sér.

Og við þurfum að berjast gegn nýjum leiðum til kúgunar kvenna sem því miður virðast spretta upp og lifa góðu lífi í breyttum heimi nets og samfélagsmiðla.

Þetta er meðal verkefna okkar í átt að jafnrétti kynjanna og hér þarf svo sannarlega að taka til hendinni, kæri þingheimur og kæra þjóð. Við getum það best saman með vökulu auga og meðvitund um mikilvægi jafnréttis á öllum sviðum. Með áframhaldandi seiglu og vinnu mjökumst við saman í rétta átt.