145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:43]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2015. Því ber að fagna að heildarjöfnuður ríkissjóðs verður samkvæmt því 17,1 milljarði betri en áætlað var í fjárlögum ársins. Meginskýringin á þessari bættu afkomu felst í 15 milljarða hærri arðgreiðslum í ríkissjóð, einkum frá Landsbanka Íslands. Þetta er reyndar ekki í fyrsta sinn sem arðgreiðslur eru stórlega vanmetnar í fjárlögum og því miður ekki það síðasta. Í frumvarpi að fjárlögum fyrir árið 2016 er augljóst að arður af Landsbanka hefur aftur verið töluvert vanmetinn. Hagnaður Landsbankans fyrstu níu mánuði ársins var orðinn 24,4 milljarðar og því ekki ólíklegt að hann nái 30 milljörðum á þessu ári. Í fjárlögum fyrir næsta ár er hins vegar gert ráð fyrir að ríkissjóður fái aðeins 7,1 milljarð í arð af Landsbankanum en nú er líklegra að stefni í að sú tala verði að minnsta kosti 20 milljörðum hærri.

Einnig vil ég benda á að eiginfjárhlutfall Landsbankans er tæp 30% sem er átta prósentustigum hærra en lágmarkskröfur Fjármálaeftirlitsins hljóða upp á. Það þýðir í raun að Landsbankinn gæti á næsta ári greitt sérstakan viðbótararð í ríkissjóð sem næmi hátt í 8% af 252 milljarða eigin fé. Það er þá nærri því að vera 20 milljarðar til viðbótar þeim 20 milljörðum sem komu til viðbótar. Við erum því að tala um að í stað þess að arður ríkissjóðs af Landsbanka verði á næsta ári 7 milljarðar eins og stendur í fjárlögum fyrir 2016 gæti hann orðið hátt í 40 milljarðar. Vanmatið gæti því numið 33 milljörðum og er mikilvægt að við þingmenn séum upplýstir um þessa líklegu skekkju í fjárlögunum fyrir árið 2016. Eðlilegast væri að ráðuneytið kæmi á framfæri leiðréttingu á þessu áður en fjárlögin verða tekin til umfjöllunar í þinginu.

Virðulegi forseti. Ég vík nú aftur að fjáraukalagafrumvarpinu vegna ársins 2015 sem er hér til umræðu. Þar vil ég nefna tvö atriði, annars vegar heimild til kaupa á hlut Innviðafjárfestingabanka Asíu og hins vegar áform um að selja 30% eignarhlut ríkisins í Landsbankanum á næsta ári.

Byrjum á áformunum um sölu á hlut ríkisins í Landsbankanum. Í ljósi aðstæðna virðist alls ekki tímabært fyrir ríkissjóð að selja 30% hlut ríkisins á næsta ári ef tilgangurinn er að fá hæsta mögulegt verð fyrir hlutinn. Um þessar mundir er slitabú Kaupþings að leita að kaupendum að Arion banka og allt stefnir í að ríkissjóður eignist Íslandsbanka að fullu á næstunni. Líklega er skynsamlegra að selja Íslandsbanka á undan Landsbankanum, en það er ljóst að söluverð Arion banka og Íslandsbanka samanlagt mun nema hundruðum milljarða. Ef hlutur ríkisins í Landsbanka bætist þar við, þessi 30% hlutur, erum við kannski að tala um 400 milljarða sem er verið að selja af hlutabréfum í bönkum á afar skömmum tíma. Til að setja þessa tölu í samhengi vil ég nefna að heildarvelta á hlutabréfamarkaði á síðasta ári, árið 2014, var um 300 milljarðar, heildarvelta ársins. Það sem af er þessu ári, fyrstu 10 mánuði þessa árs, er veltan orðin 321 milljarður. Í fljótu bragði virðist algerlega óraunhæft að ætla að hlutabréfamarkaðurinn geti tekið við öllu þessu framboði á hlutabréfum í bönkum alveg á næstunni. Ef ætlunin er að fá gott verð fyrir eignarhlut ríkissjóðs í Landsbankanum væri því líklega skynsamlegra að bíða með áform um að selja 30% í honum.

Hæstv. fjármálaráðherra hefur upplýst að Bankasýslan vinni að skýrslu um mögulega sölu á hlut í Landsbankanum og að sú skýrsla verði tilbúin snemma á næsta ári. Landsbankinn hefur skilað mjög góðum arði í ríkissjóð. Á meðan bankakerfið er enn óbreytt og bankar í aðstöðu til að skammta sér hagnað úr hagkerfi landsins í skjóli fákeppni er fátt sem bendir til annars en að þeir muni áfram skila mjög góðum arði. Er þá ekki skárra að þessi mikli arður renni í ríkissjóð þar sem hann nýtist öllum landsmönnum en í vasa þröngs hóps einkaeigenda?

Annars hefur sá sem hér stendur og Framsóknarflokkurinn og fleiri flokkar lýst því yfir að skynsamlegt gæti verið að breyta eigandastefnu Landsbankans þannig að bankinn hefði fleiri markmið en þau að hámarka arð eigandans. Landsbankinn gæti haft það að markmiði að efla samkeppni á bankamarkaði með því að bjóða betri lánakjör og lægri þjónustugjöld en við því yrðu aðrir bankar að bregðast með því að lækka einnig sín gjöld og álögur. Þótt slík eigandastefna mundi hugsanlega lækka arð ríkissjóðs af Landsbankanum eitthvað yrði ávinningur landsmanna af aukinni samkeppni í bankaþjónustu margfalt hærri fjárhæð.

Samkvæmt bls. 45 í fjáraukalagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að sala á 30% eignarhlut í Landsbanka fari fram á árinu 2016 en þau áform eru að mínu mati algjörlega ótímabær, m.a. af þeim ástæðum sem ég hef rakið hér.

Virðulegi forseti. Þá víkur sögunni að V. kafla frumvarpsins þar sem fjallað er um heimildir. Þar er meðal annars óskað eftir heimild Alþingis til að binda 2,5 milljarða í erlendum gjaldmiðli í Innviðafjárfestingabanka Asíu eins og kemur fram á bls. 63. Þar koma ekki fram röksemdir sem réttlæta að ríkissjóður leggi allt að 17,6 milljónir dollara að veði í rekstur banka sem mun ekki starfa að uppbyggingu hérlendis. Ekki kemur heldur fram hver rekstrarkostnaður ríkisins verður af því að taka þátt í fundum og ferðalögum vegna aðkomu ríkissjóðs að bankanum. Hins vegar kemur fram að atkvæðavægi Íslands verði innan við 0,3% og áhrif okkar í bankanum því engin, eða því sem næst. Þess má geta að Ísland er aðili að evrópska innviðabankanum sem tapaði miklum peningum á síðasta ári.

Eftir framsögu málsins innti ég hæstv. fjármálaráðherra eftir því hver væri væntur ávinningur ríkissjóðs af þátttöku í þessum asíska innviðafjárfestingabanka. Hæstv. fjármálaráðherra svaraði því efnislega til að þetta væri fjárfesting sem reikna mætti með að mundi aukast að verðgildi en einnig að aðild að bankanum væri til þess fallin að greiða götu íslenskra fyrirtækja til þátttöku í verkefnum bankans á starfssvæði hans, sem sagt í Asíu og Eyjaálfu. En er það hlutverk ríkissjóðs að veðja á hækkun hlutabréfa í erlendum bönkum? Á ríkissjóður að festa peninga skattgreiðenda í slíkri hlutaveltu? Á ríkissjóður að taka á sig kostnað til að greiða götu íslenskra verkfræðifyrirtækja? Geta þessi verkfræðifyrirtæki ekki greitt þann kostnað sjálf af sinni útrás? Er ekki næg eftirspurn eftir íslensku hugviti erlendis þó að við látum vera að binda fé skattgreiðenda í Asíubankanum? Og væru þessi útflutningsfyrirtæki fús til að greiða sjálf þennan herkostnað við sína eigin útrás?

Þess má geta að Bandaríkin og Japanir hafa ákveðið að vera ekki aðilar að þessum asíska innviðafjárfestingabanka og ýmis umhverfissamtök hafa lýst áhyggjum af því að bankinn muni ekki gæta nægilega að umhverfismálum í sínum verkefnum. Því virðist skjóta skökku við að vilja festa gjaldeyri ríkisins í erlendum banka sem hefur enga starfsemi hér á landi og mjög óljóst um ávinning af fjárfestingunni fyrir ríkissjóð en í sömu andrá að vilja selja hlut ríkisins í banka sem sinnir hér mikilvægri starfsemi og skilar mjög miklum arði í ríkissjóð.

Virðulegi forseti. Ég tel mjög erfitt að réttlæta fjárfestingu ríkissjóðs í Innviðafjárfestingabanka Asíu og legg til við Alþingi að heimildin verði ekki veitt.