145. löggjafarþing — 30. fundur,  10. nóv. 2015.

fjáraukalög 2015.

304. mál
[15:54]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar ágætu spurningar sem eru mjög góðar. Það er gott að fá tækifæri til að svara þeim hér.

Tel ég að samfélagsbanki væri brot á samkeppnislögum eða hugsanlega einhverjum lögum um ólögmæta ríkisaðstoð, til dæmis? Það fer alveg eftir því hvernig þetta væri útfært. Ef það væri rangt útfært má sjá fyrir sér að það gæti á einhvern hátt stangast á við lög um ríkisaðstoð, ef menn ætla til dæmis að fara að dæla fé úr ríkissjóði til þess að fjármagna rekstur slíks banka í samkeppni við aðra banka, en það er að sjálfsögðu ekki það sem við erum að leggja til.

Það er verið að leggja til að í stað þess að Landsbankinn hafi það markmið að hámarka arð sinn komi hann sér upp fleiri og samfélagsmiðaðri markmiðum. Að sjálfsögðu er ekki verið að leggja til að hann sé rekinn með tapi, það væri einmitt brot á lögum um ríkisstyrki. Hugmyndin er sú að fjölga markmiðunum, láta hann taka forustu í að draga úr kostnaði sínum, draga úr kostnaði sem hann leggur á viðskiptavini sína í formi alls konar þjónustugjalda og þá fylgja aðrir bankar eftir. Það er ekki verið að leggja til að hann verði rekinn með tapi.

Íbúðalánasjóður tapaði vissulega peningum. Hann var í ríkiseigu. Getum við þá ályktað að allir bankar í ríkiseigu muni tapa peningum? Ég er ekki sannfærður um það. Hérna voru margir bankar einkavæddir. Þeir töpuðu miklu meiri peningum en Íbúðalánasjóður og tjón samfélagsins var margfalt meira. Eigum við þá að álykta að allir einkavæddir bankar tapi peningum? Ég held ekki. Ég held að þetta sé allt of mikil einföldun. Ég held að í raun sé það þannig að eignarformið skiptir ekki endilega máli um það.

Þriðja spurningin: Hvort ég sé þeirrar skoðunar að ríkisvæða eigi önnur stór fyrirtæki en bankana. Svar mitt við því er nei.