145. löggjafarþing — 108. fundur,  4. maí 2016.

munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir stjórnvalda vegna aflandsfélaga.

[15:52]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil segja í upphafi máls míns að það er jákvæð afleiðing af umfjölluninni um Panama-skjölin og umræðunni um þau undanfarnar vikur að algjör straumhvörf hafa orðið í umræðunni um skatta í samfélaginu, mikilvægi þeirra og mikilvægi réttlátrar skattlagningar sem og gagnsemi skatta. Við höfum búið við það að orðræðan um skatta hefur byggst á viðhorfinu um að það sem greitt sé í skatta sé glatað fé, það sé óæskilegt að greiða skatta, skattheimta sé eitthvað sem sé neikvætt og að skattsniðganga með öllum löglegum og hálflöglegum leiðum sé bæði æskileg og skynsamleg ráðstöfun fólks. Ég held að umræðan undanfarnar vikur hafi breytt þessu, hafi loksins snúið orðræðunni um skattheimtu aftur í þá veru sem hún var fyrir allmörgum áratugum síðan þegar stoltustu bændurnir gengu um og bentu á álagningarskrána til vitnis um hversu stöndugir þeir voru og glöddust yfir því að leggja mikið af mörkum til samfélagsins. Vonandi erum við að sjá ákveðna grundvallarbreytingu að þessu leyti, að við hættum að sætta okkur við að skattsniðganga sé æskileg og réttlætanleg og horfum í staðinn til þess að hafa einfalda, skýra og réttláta skattalöggjöf, vissulega, en með þeim hætti að þeir sem bera mest úr býtum leggi mest af mörkum og um það verði víðtæk samfélagsleg samstaða.

Virðulegi forseti. Ég fagna að því leyti tóninum í ræðu hæstv. fjármálaráðherra að hann talar um að vilji sé til þess að uppræta skattsvik og að grafast fyrir að fullu og öllu um umfang þeirra. Ég fagna því. Það hefur lengi verið baráttumál Samfylkingarinnar að grennslast fyrir um umfang skattsvika og uppræta þau. Það er fagnaðarefni ef ríkisstjórnin ætlar með raunverulegum hætti að ganga þar fram fyrir skjöldu. Við höfum upplifað það á síðustu árum að þegar umræður kviknuðu um möguleika á því að kaupa gögn um eignir í aflandsfélögum til afnota fyrir skattyfirvöld, þá heyrðust alls konar úrtöluraddir, við tókum eftir því. Ég held því fram að ef ekki hefði verið fyrir ákveðinn og einbeittan þrýsting stjórnarandstöðunnar á Alþingi hefði það ekki orðið að veruleika á sínum tíma.

Ég ítreka mikilvægi þess að með þau gögn sem nú þegar hafa verið keypt verði unnið af fullri alvöru. Við í stjórnarandstöðunni fengum nýverið skattrannsóknarstjóra á okkar fund þar sem hún gerði grein fyrir vinnunni við gögnin. Ég held að það sé mjög mikilvægt sem hæstv. fjármálaráðherra sagði hér áðan að allt afl verði lagt í að tryggja að þau nýtist til fulls. Ég tek því þá þannig líka að tryggður verði mannafli og aðgerðir jafnt hjá ríkisskattstjóra, sem þarf að opna sum þessara mála, sem og hjá skattrannsóknarstjóra til að tryggja að málin ónýtist ekki og að unnið verði með allar þessar upplýsingar.

Ég tel líka að við eigum að ganga lengra og setja almennt ákvæði í skattalöggjöf sem beinlínis er jákvæð heimild til skattyfirvalda að kaupa hvers konar gögn sem upplýst geti um skattsvik, þjófstolin, allra handa. Ég held að það yrði mjög gott upp á réttaröryggið að gera. Það hefði gríðarleg varnaðaráhrif og ég held að það væri satt að segja líka jákvætt innlegg á Alþingi að segja á þessum tímapunkti: Við erum að breyta um stefnu. Það verður aldrei framar þannig að menn geti komið sér í skjól. Hver einn og einasti sem aðstoði við þá vinnu viti að honum beri lagaskylda til þess að upplýsa um það og að það sé algjörlega ljóst að skattyfirvöld hafi gríðarlega víðtækar heimildir til að nota allra handa gögn, sama hvernig þau eru til komin, vegna þess að hér er um að ræða þjófnað frá samfélaginu sem skiptir okkur máli að geta upprætt.

Ég vil minna í þessu samhengi á mikilvægi þess að freista þess að opna betur sannleikann um það sem gerðist raunverulega hér fyrir hrun. Við vitum það eitt að Mossack Fonseca var mikið notuð af Landsbanka Íslands. Við vitum líka að aðrir bankar notuðu ekki Mossack Fonseca. Við vitum líka að í heimi eignaumsýslu á þessum árum var gjarnan talað um þessa lausn, Landsbankann og Mossack Fonseca, sem svona bónuslausn þegar kæmi að því að fela peninga, þetta væri ódýr leið til að fela peninga. Aðrir bankar buðu þar af leiðandi upp á fínni og dýrari lausnir til þess að losa menn við peninga og fela þá. Það er athugunarvert að við höfum ekkert séð um það. 600 Íslendingar hins vegar áttu einhvers konar félög í gegnum Mossack Fonseca. Það hlýtur að kalla á spurninguna: Hvað gerði Kaupþing? Hvað gerði Glitnir á árunum fyrir hrun? Ég vil þess vegna líka segja að við þurfum að finna leiðir til þess að opna þær bækur upp á gátt. Höfum við lagaheimildir til þess að krefja slitabúin um að opna bækurnar þannig að við getum rannsakað þetta? Eða þarf frekari lagaheimildir til þess?

Ég held að þetta sé mjög mikilvægt því að gagnalekinn núna er auðvitað bara toppurinn á ísjakanum. Það er athyglisvert að í öllum þessum upplýsingum sem skekja heiminn allan og fjalla um gríðarlegan fjölda þjóðarleiðtoga og leiðtoga í alls konar furðulegum ríkjum og alls konar auðmenn hér og þar í heiminum, er ekki einn einasti Bandaríkjamaður. Er það tilviljun? Og hverju sætir? Það er líka athyglisvert að hugsa: Ef þetta er umfangið í gegnum þessa einu lögmannsstofu í Panama, hver er þá markaðshlutdeild hennar á markaði lögmannsstofa í Panama eða í öðrum þeim ríkjum sem hafa aðstæður til þess fyrir lögmannsstofur að fela peninga fyrir fólk?

Ég óttast að það sem við höfum séð núna sé einungis toppurinn á ísjakanum og mun stærri fjárhæðir hafi verið fluttar út úr hagkerfum Vesturlanda og faldar. Það hlýtur líka að kalla á að við endurmetum hvort við gætum staðið frammi fyrir því að það sem við höfum talið að væru staðreyndir, eins og tölur um jöfnuð á Íslandi, hvort á þeim sé raunverulega byggjandi, eða hvort það geti verið að það séu peningar sem hafi verið fluttir burt sem skekki þá mynd og gefi okkur falskt öryggi um að við búum í reynd í jafnaðarsamfélagi, en svo búum við kannski þegar á öllu er á botninn hvolft og allar upplýsingar koma upp á borðið í ójafnaðarsamfélagi.

Ég vil, virðulegi forseti, ítreka þær tillögur sem við í Samfylkingunni höfum lagt fram á Alþingi um þessi mál og þá sérstaklega tillöguna um viðskiptabann. Ég fagna sérstaklega orðum hæstv. fjármálaráðherra, þegar hann í lok ræðu sinnar tók undir tillögur okkar að því leyti. Ég hlakka til að sjá vinnu utanríkismálanefndar við þá tillögu. Ég held að það skipti mjög miklu máli að Alþingi sendi þau skýru skilaboð á þessu vorþingi að við séum tilbúin að veita skýra heimild til ríkisstjórnarinnar að taka þátt í alþjóðlegum aðgerðum. Ég er alveg til í að vinna með þá túlkun hæstv. ráðherra hér áðan að það sé viðskiptabann sem lúti að þeim ríkjum sem ekki séu tilbúin að vinna með alþjóðlegu átaki til þess að setja allt upp á borðið. Ég fagna því sérstaklega að hæstv. ráðherra hafi tekið vel í þá hugmynd áðan.

Að síðustu vil ég rifja aftur upp punktana tólf sem PES-flokkur evrópskra jafnaðarmanna samþykkti fyrir tveimur vikum og ég hef áður gert að umtalsefni hér úr ræðustólnum. Þar eru lagðar til fjölþættar aðgerðir til þess að bregðast við þessari stöðu og allar undirstrika þær mikilvægi þess að nýta alþjóðlegt frumkvæði á þessum örlagatímum til að draga rétta lærdóma af Panama-skjölunum og setja nýjar leikreglur sem fólk getur treyst að tryggi að velferðarsamfélög Vesturlanda fái þær skatttekjur sem verða til í þeim ríkjum.