145. löggjafarþing — 171. fundur,  13. okt. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:08]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið styðjum við í Samfylkingunni þær kerfisbreytingar sem verið er að framkvæma gagnvart ellilífeyrisþegum og höfum stutt allar kjarabætur til handa öryrkjum og eldri borgurum á þessu kjörtímabili. En við getum ekki tekið þátt í því með ríkisstjórnarflokkunum að auka á ójöfnuð með ákvörðunum sem hér er verið að taka. Hér er verið að taka þá ákvörðun að lífeyrisþegar í sambúð hækki hlutfallslega minna en lífeyrisþegar sem búa einir. Það er verið að hækka greiðslur til þeirra sem búa einir með því að auka vægi þeirra bótaflokka sem skerðast mest í kerfinu. Þetta eru vondar tillögur til hækkunar. Við höfum boðið upp á aðrar betri, ekki síst í ljósi þess að kaupmáttur lífeyrisþega, kaupmáttaraukningin, er einungis 50% af kaupmætti lægstu launa á kjörtímabilinu. Ég sit því hjá.