146. löggjafarþing — 17. fundur,  24. jan. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:30]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn allir. Við höfum nú í kvöld hlýtt á ræður þingmanna frá öllum sjö flokkunum sem eiga sæti á Alþingi á þessu kjörtímabili. Eins og gefur að skilja eru skoðanir þeirra og áherslur mismunandi og það ber að virða. Virðing fyrir skoðunum annarra er mjög mikilvæg og það er engin skoðun hin eina alrétta.

Oft hefur sjónarhornið, hvaðan horft er til, áhrif á útkomuna. Í Íslandsklukkunni, skáldsögu Halldórs Laxness, segir Arnas Arneus í samræðum sínum við þær Eydalínssystur um sannleikann: „Það er fjall í Kinninni fyrir norðan, sem heitir Bakrángi ef maður sér austaná það, Ógaungufjall ef maður stendur fyrir vestan það, en utanaf Skjálfanda kalla sjófarendur það Galta.“

Það er mín skoðun og trú að sú ríkisstjórn sem nú hefur tekið við stjórnartaumum í landinu með Bjarna Benediktsson í forsæti muni vinna af heilindum að áframhaldandi uppbyggingu til hagsbóta fyrir landsmenn alla.

Það er afar mikilvægt að við séum meðvituð um að hver hlekkur í þeirri keðju sem Ísland byggir er mikilvægur fyrir heildina, rétt eins og höfuðborgarsvæði þrífst ekki án landsbyggðar og landsbyggð ekki án höfuðborgar.

Við erum ein þjóð í einu landi og því betur sem okkur tekst að vinna saman að uppbyggilegum hlutum, þeim mun betur vegnar okkur sem þjóð. Hlutverkin, eða störfin, eru margvísleg og misþung en séu þau rækt af samviskusemi og eins vel og hverjum er unnt leiðir það til góðs. Við búum í mjög mörgu tilliti við góðar aðstæður í samanburði við aðra íbúa heimsins. Það er hollt að velta því fyrir sér öðru hverju og vera ánægður, glaður og jákvæður. Þær tilfinningar smita út frá sér og stuðla að framgangi góðra hluta. En neikvæðni og bölmóður draga þróttinn úr.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eru leiðarstefin jafnvægi og framsýni, eins og hæstv. forsætisráðherra og fleiri hafa rakið hér á skýran hátt. Lögð er áhersla á innviðauppbyggingu samfélagsins og það er afar brýnt, ekki síst með tilliti til hins nýja og sístækkandi atvinnuvegar þjóðarinnar, ferðaþjónustunnar, sem teygir anga sína víða og eykur enn á mikilvægi góðra aðstæðna til að fara um landið okkar á öruggan hátt.

Því verður aukinn kraftur lagður í uppbyggingu í samgöngumálum á öllum sviðum með hagkvæmni og öryggi í forgrunni og til að bæta búsetuskilyrði og atvinnutækifæri um allt land. Þá mun ríkisstjórnin beita sér fyrir lausn á áratugadeilu um framtíð Reykjavíkurflugvallar og treysta innviði innanlandsflugs og sjúkraflugs til framtíðar, sem er gríðarlega mikilvægt verkefni, ekki síst fyrir alla þá sem búa á landsbyggðinni.

Það eru gömul sannindi og ný að umgengni er alla jafna í samræmi við umhverfið, alhliða góð þjónusta og gott viðmót í hverju sem er skilar góðu til baka. Með stórauknum fjölda ferðamanna er nauðsynlegt að tryggja öryggi þeirra og landsmanna á allan þann hátt sem hægt er. Aukin löggæsla er sannarlega nauðsynleg, bæði á þjóðvegum og inni í bæjum. Starfsöryggi lögreglumanna verður einnig að vera tryggt. Lögreglumenn eiga ekki að vera einir á vakt á stórum svæðum eins og þekkist úti um land. Það er því mikilvægt að unnið sé að uppbyggingu löggæslu, ekki síst á landsvísu, eins og kemur fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Á öllum skólastigum er verið að vinna mikilvægt starf við að mennta ungt fólk, þjálfa það til framtíðarstarfa og kenna því gagnrýna og skapandi hugsun, að horfa fram á veginn og sjá tækifæri til að gera betur fyrir sig og sitt samfélag. Við þurfum að vera í stakk búin til að takast á við allt aðrar kröfur til allra skólastiga sem koma til með breyttri samfélagsgerð, atvinnuháttum, fjölmenningu og alþjóðavæðingu. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir að efla öll skólastig til þess að takast á við krefjandi hlutverk með framsýni að leiðarljósi.

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Til hamingju með nýja ríkisstjórn sem verður ríkisstjórn allra landsmanna og allra landsvæða. Verkin munu tala.