146. löggjafarþing — 38. fundur,  2. mars 2017.

málefni Seðlabankans og losun hafta.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem löngum hefur verið rætt um í tengslum við aflandskrónueigendurna er þetta hér: Við ætlum ekki að fórna neinu til þess að gera þessum aðilum mögulegt að komast út úr landinu með sínar eignir ef það þýðir á einhvern hátt að eftir sitji allur almenningur, fyrirtækin í þessu landi, sveitarstjórnir og aðrir, lífeyrissjóðir, í höftum með einhvern vanda. Um þetta hefur málið snúist allan tímann. Það hefur engin stefnubreyting orðið á því, það kemur ekki til greina að skapa einhverja lausn fyrir aflandskrónueigendur sem ekki felur það um leið í sér að hægt verður að fara í fullt afnám hafta. (Gripið fram í.) Það má segja með vissum hætti að við höfum verið að vinna með þetta sama hugarfar að leiðarljósi í fyrra þegar við héldum útboð fyrir aflandskrónueigendur. Þá vorum við ekki að veita þeim einhver sérmeðferð til þess að fá fyrst lausn á sínum málum áður en við tókum á málefnum almennings og allra annarra í landinu og með nákvæmlega sama hætti erum við að vinna málið núna.