146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[17:49]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar allt kemur til alls hefur stofnun komið til ráðuneytis og útskýrt rekstrarforsendur sínar og ráðherra þarf að samþykkja rekstraráætlun. Á einhverjum tímapunkti þarf, ef til hallareksturs kemur, að útskýra fyrir fjárlaganefnd og Alþingi af hverju þær rekstrarforsendur sem okkur voru gefnar til að samþykkja standast ekki, af hverju okkur var ekki sagt satt og rétt frá til að byrja með.

Við stöndum frammi fyrir því núna, þar sem við höfum fengið fréttir af því, að það vantar um 4 milljarða vegna kostnaðar sjúkratrygginga og lyfja. Hluti af því er kannski af því að mjög hratt var farið yfir samþykkt fjárlaga. Við fengum ekki tíma til að heyra allar forsendur. Þær ástæður sem gefnar hafa verið eru að þetta séu í raun flóknir samningar sem ekki séu nógu nákvæmir í ýmsum atriðum, t.d. að koma í veg fyrir opinn krana á opinber fjárútlát. Það eru tvímælalaust margir staðir sem við eigum eftir að huga að en þetta er tvímælalaust skref í rétta átt. Ég held að þetta efli eftirlit Alþingis. Það er meira skipulag í því hvaða upplýsingar Alþingi fær um hvaða fjárheimildir við samþykkjum og hvernig við getum gengið á eftir því að þeim sé framfylgt. En þetta er tvímælalaust „work in progress“ eða vinna í því ómögulega, sem hið mannlega er kannski. En við reynum en gerum kannski betur seinna.