146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orlof húsmæðra.

119. mál
[18:10]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna um allan heim. Við stöldrum við á þessum degi og fögnum þeim framförum sem orðið hafa í réttindabaráttu kvenna, framförum sem hafa orðið á þeim tæpu 100 árum sem liðin eru frá því að ríflega 15.000 konur tóku sig til í New York og tóku þátt í kröfugöngu 8. mars 1908 til að berjast fyrir jafnrétti kynjanna á öllum sviðum mannlífsins. Í dag er viðfangsefni Sameinuðu þjóðanna í tilefni baráttudagsins að leggja áherslu á og vekja athygli á vinnumarkaðnum, kvennastörfum, kynskiptum vinnumarkaði og möguleikum kvenna til jafnra launa á við karla.

Og á þessum alþjóðlega baráttudegi fyrir bættum réttindum kvenna leggja þingmenn Sjálfstæðisflokksins fram frumvarp sem gengur út á að leggja niður réttindi afmarkaðs hóps kvenna, réttindi kvennahóps sem hefur haft lífsviðurværi mestan hluta starfsævi sinni heima fyrir í ólaunaðri vinnu við heimilisstörf og uppeldi barna, kvennahóps sem ekki hefur unnið sér inn orlofsrétt.

Enn þá er það svo að konur sinna ólaunaðri vinnu á heimilum og umönnun fjölskyldumeðlima í ríkara mæli en karlar. Það staðhæfa stofnanir á borð við Jafnréttisstofu og Alþýðusamband Íslands og fleiri stofnanir sem hafa kynjamuninn í samfélaginu á sinni könnu.

Það er líka einu sinni svo að á Íslandi eru konur ávallt fleiri í hópi þeirra sem búa við sára fátækt. Um það vitnar m.a. ítarleg rannsókn sem unnin var fyrir velferðarvaktina í velferðarráðuneytinu og birtist í skýrslu um sárafátækt sem kom út í fyrra. Í þeirri skýrslu sýna tölulegar upplýsingar það svart á hvítu að á árunum frá 2004 til ársins 2015 voru fleiri konur en karlar sárafátækar öll þau ár nema árið 2009. Og niðurstöður skýrslunnar sýna líka að sárafátækt er líka mjög algeng í hópi eldri borgara þessa lands. Sum sé, eldri konur og einstæðar mæður eru fjölmennastar í hópi sárafátækra í þessu landi.

Og hvaða möguleika hafa þessir samfélagshópar til að taka út orlof, borga það úr eigin vasa jafnvel og eiga kost á viðunandi fríi? Ekki marga. Þetta er fátækt og tekjuminna fólk sem að auki hefur ekki áunnið sér jafn mikil réttindi til orlofstöku og aðrir vinnandi samfélagshópar.

Það er rétt sem kemur fram í greinargerð frumvarpsins sem hér er lagt fram að tilgangur laganna um húsmæðraorlof var að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa og veita húsmæðrum orlofsréttindi líkt og launþegum. Og það er líka rétt sem kemur fram í greinargerðinni að það hafa orðið miklar breytingar í átt til jafnréttis og jafnræðis kynjanna á síðustu árum. Atvinnuþátttaka kvenna hefur vissulega aukist frá því að lögin voru sett í fyrsta sinn og kynin taka jafnari þátt en þá í uppeldi barna, til að mynda með fæðingarorlofi til handa báðum foreldrum.

En hvaða konur eru það þá sem taka sér húsmæðraorlof í dag? Það kemur ekki fram í greinargerð frumvarpsins en það kemur fram í umsögn orlofsnefndar húsmæðra í Reykjavík sem sendi inn umsögn við sama frumvarp sem hefur verið flutt fjórum sinnum áður. Í þessari umsögn orlofsnefndar húsmæðra í Reykjavík, frá 5. mars 2015, segir, með leyfi forseta:

„Enn hallar á konur í þjóðfélaginu og þá sérstaklega eldri konur og láglaunakonur á öllum aldri. En þetta eru þeir hópar er nýta sér orlof húsmæðra í Reykjavík. Ýmsar kannanir sýna að konur njóta ekki jafnréttis í launum og þá sérstaklega láglaunakonur og eldri konur en þessir tveir hópar eiga langt í land með að ná jafnrétti hvað þetta varðar.

Flestar af þeim eldri konum er njóta orlofsins voru heimavinnandi, áttu ekki rétt á fæðingarorlofi né dagvistun fyrir börn sín. Flestar þeirra eiga ekki rétt á lífeyrissjóðsgreiðslum og margar hverjar hafa séð um veika eiginmenn árum saman ásamt því að réttur þeirra til eftirlauna maka sinna vegur ekki þungt.“

Og ég held áfram, með leyfi forseta:

„Margar þessa kvenna hafa einangrað sig félagslega. […] Orlofsferðirnar rjúfa einangrun margra þessara kvenna. Þessar konur hafa hvorki fjárráð né treysta sér í ferðir á eigin vegum.“

Í umsögn sinni bendir orlofsnefndin enn fremur á að það séu helst láglaunakonur og konur með lág eftirlaun eða lága lífeyristryggingu sem nýta sér húsmæðraorlof. Það er og.

Þó að margir haldi því fram og kannski réttilega að húsmæðraorlof sé tímaskekkja er það enn þá svo að þeir samfélagshópar sem nýta sér húsmæðraorlof eru lágtekjukonur og eldri lágtekjukonur, konur sem eru öryrkjar og konur sem hafa ekki áunnið sér réttindi á vinnumarkaði eins og aðrir samfélagshópar.

Er þá ekki algjör tímaskekkja af hálfu framsögumanna frumvarpsins að ráðast ekki að rótum þess sem lög um húsmæðraorlof eru byggð á? Er það ekki tímaskekkja af hálfu framsögumanna frumvarpsins að ráðast ekki í að laga það samfélagsmein sem er að finna í íslensku samfélagi sem lýtur að launamun kynjanna, kynskiptum vinnumarkaði, kynjahalla innan dómskerfisins og niðurfellingu á kærum innan dómskerfisins sem lúta að kynbundnu ofbeldi og síðast en ekki síst að mæla ekki frekar fyrir frumvörpum sem snúast um aðgerðir sem beinast að því að uppræta kynbundið ofbeldi? Í stað þess að taka örlítil réttindi af eldri lágtekjukonum, konum sem eru öryrkjar og konum sem hafa ekki áunnið sér orlofsréttindi, er þá ekki meiri samfélagsleg ábyrgð fólgin í því að rétta við það óréttlæti sem konur búa við enn þann daginn í dag á svo mörgum sviðum samfélagsins?

Ég vil í þessum efnum líka benda á umsögn Alþýðusambands Íslands við frumvarpið þegar það var lagt fram árið 2015 þar sem segir að það sé nauðsynlegt áður en Alþingi tekur ákvörðun um að afnema réttindi tiltekins þjóðfélagshóps að kannað sé hvaða áhrif slík aðgerð hefur fyrir þann hóp og að það liggi fyrir hversu fjölmennur sá hópur er áður en ákvörðun er tekin. Og það kemur alls ekki fram í þessu frumvarpi hve stór hópur kvenna sem fara í húsmæðraorlof er. Það kemur heldur ekkert fram í þessu frumvarpi hvaða hópur kvenna þetta er.

Fyrir hvern er þá frumvarp um afnám húsmæðraorlofs? Getur verið að það sé eingöngu í þágu sveitarfélaganna sem frummælandi, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, nefndi í framsöguræðu sinni sem greiða heilar 100 kr. á hvern íbúa til að standa straum af húsmæðraorlofi? Það finnst mér ekki ólíklegt, enda kveður frumvarpið á um að þeir fjármunir sem muni sparast með því að fella brott réttindi húsmæðra muni renna óskipt í vasa sveitarfélaganna en ekki í sjóð til að auðvelda tekjulágu barnafólki sem ekki hefur tök á launuðu orlofi, ekki í sjóð handa eldri, tekjulágum konum til að auka lífsgæði þeirra, ekki í sjóð handa konum sem eru öryrkjar heldur renni þeir fjármunir beint aftur í vasa sveitarfélaganna og ekki er tiltekið hvað á að gera við þá fjármuni.

Herra forseti. Í dag er 8. mars, alþjóðlegur baráttudagur kvenna um allan heim. Það er óviðeigandi í hæsta máta að á þeim degi séu á Alþingi þingmenn sem leggja fram frumvarp sem felur í sér að afnema réttindi til afmarkaðs hóps kvenna, kvenna sem sannarlega hafa lagt sitt af mörkum til samfélagsins en eru ekki í stakk búnar til að veita sér þann munað að fara í orlof.