146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

útlendingar.

236. mál
[12:19]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. 2. gr. frumvarpsins er nú gamall draugur og hefur komið fram fyrir þingið nokkrum sinnum. Mig minnir, hæstv. ráðherra getur leiðrétt mig, að í tíð Ólafar Nordal heitinnar hafi verið einhver áform um að fara að auglýsa í þessum ríkjum, Makedóníu og Albaníu, sem eru talin örugg ríki, og leiðrétta ákveðinn misskilning eða ákveðnar mýtur um aðgengi að alþjóðlegri vernd hér á landi. Þetta hefur víst tíðkast, Norðmenn og Danir, minnir mig, hafa farið þessa leið. Mér skildist að utanríkisráðuneytið, þá væntanlega í samstarfi við innanríkisráðuneytið, væri að hugsa um það til þess að við þyrftum ekki endalaust að vera að endurnýja þessi lög, því að það er oft ástæða fyrir því að fólk frá Makedóníu og Albaníu kemur hingað til lands til að sækja um alþjóðlega vernd, lögmæt ástæða. Í þessum löndum er m.a. blóðhefnd enn við lýði. Það er ekki að ástæðulausu að ákveðnir einstaklingar koma hingað til lands til að sækja um vernd. En að sama skapi virðist vera til ákveðin mýta um aðgengi að Íslandi og alþjóðlegri vernd sem ber að leiðrétta. Ég vil spyrja hvort það séu einhver áform uppi um að reyna að auglýsa annaðhvort í fjölmiðlum þar eða koma því inn í umræðuna til þess að við séum ekki að endurnýja þennan lagabókstaf endalaust, því að þetta ákvæði átti bara að vera til bráðabirgða.