146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

útlendingar.

236. mál
[12:25]
Horfa

dómsmálaráðherra (Sigríður Á. Andersen) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að mínu mati væri það einmitt jákvætt skref að gera ákvæðið sem um ræðir ótímabundið en ekki tímabundið. Það eitt og sér að hafa svona ákvæði tímabundið skapar auðvitað gríðarlegt ójafnræði líka gagnvart þeim sem sækja hér um hæli og sannarlega heyra undir ákvæðið. Það væri mikið heillaskref að gera þetta ákvæði ótímabundið og þar með reglurnar hér skýrar. Þar með sendum við út ákveðin skilaboð um að það sé ekki í boði að koma með tilhæfulausar umsóknir og dvelja hér meðan beðið er eftir úrlausn á æðra stjórnsýslustigi.

Hvað auglýsingar eða annars konar markaðssetningu á aðstæðum hér á Íslandi varðar þá hafa menn svo sem velt því fyrir sér. Utanríkisráðuneytið og innanríkisráðuneytið líka. Það eru auðvitað kostir og gallar sem geta falist í að auglýsa aðstæður hér á landi. Það getur líka haft þveröfug áhrif með því að vekja athygli á aðstæðum hér yfir höfuð. En þetta er eitthvað sem kemur vel til greina. Ég hef sjálf verið í samskiptum við talsmenn yfirvalda t.d. í Makedóníu, sendiherra Makedóníu. Yfirvöld í þessum löndum hafa mjög mikinn áhuga á að fylgjast með og reyna að greina ástæður þess að landar þeirra koma í svo miklum mæli til Íslands. Þeir vilja fá upplýsingar um hvernig við tökum á móti þeim. Það er eitthvað sem við gerum sem trekkir að fólk frá þessum löndum sérstaklega umfram önnur lönd. Ég hef lagt áherslu á það í mínum samtölum við Makedóníumenn að það væri kannski tilefni fyrir þá sjálfa að upplýsa líka og taka þátt í því með okkur að kynna aðstæður hér á landi.

Hvað sérstakar auglýsingar varðar er það auðvitað seinni tíma mál. En ég bind miklar vonir við þetta úrræði þegar það er orðið ótímabundið, (Forseti hringir.) að reglurnar hérna verði öllum hælisleitendum skýrar þegar þeir koma hingað.