146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

breyting á ýmsum lögum á sviði samgangna.

234. mál
[15:49]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framlagningu hans og ræðu í kringum þetta frumvarp. Í sjálfu sér er andsvar kannski ekki rétta lýsingin á uppkomu minni hér, en mig langaði bara að nýta tækifærið til að eiga aðeins orðastað við ráðherra um þetta mál. Við munum að sjálfsögðu skoða þetta betur í umhverfis- og samgöngunefnd.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvað þessar breytingar, eins og t.d. hvað varðar farþegaskip, þ.e. hvort það hafi verið metið hvaða áhrif þær muni hafa á íslensk skip og umhverfið sem við búum við hér, hvort og hvaða áhrif, bara svona til að leiðsegja okkur aðeins vinnuna í umhverfis- og samgöngunefnd. Hver eru sem sagt þau áhrif sem þessar breytingar munu hafa á rekstrarumhverfið?