146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

húsnæði Listaháskóla Íslands.

143. mál
[16:40]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki beint andsvar en ég fann mig knúna til þess að koma hérna upp og lýsa yfir hversu ánægjulegt það er að heyra hv. þingmann segja það sem hún sagði. Það virðist vera kominn mjög þverpólitískur skilningur og vilji gagnvart þessum málstað og málefni, ekki bara meðal þingmanna heldur jafnvel í máli ráðherra hina síðustu daga. Það er kominn einhver skilningur á þetta.

Eins vil ég taka undir það sem hv. þingmaður sagði um hversu brýnt þetta er í sambandi við það að annars missum við gott fólk til útlanda og það verður atgervisflótti. Ég vildi segja að það er mjög gaman að heyra þetta og greinilega horfir til bjartari tíma fyrir list og menningu á Íslandi.