146. löggjafarþing — 42. fundur,  9. mars 2017.

húsnæði Listaháskóla Íslands.

143. mál
[16:46]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. frummælanda fyrir innlegg hans og þessa tillögu. Ég varð þess heiðurs aðnjótandi á síðasta kjörtímabili sem fulltrúi í fjárlaganefnd að fara í heimsókn í Listaháskólann. Við fengum þar ágæta kynningu á húsnæðinu og starfseminni og öðru slíku. Það er auðvitað afar dapurlegt að við skulum enn þá árið 2017, eftir öll þessi ár, frá því 1999, vera í þessari stöðu. 18 árum síðar erum við enn í þeirri stöðu að húsnæðið uppfyllir ekki þau skilyrði sem skólinn þarf og starfsemin þarf og hefur skólinn í rauninni alltaf verið hálfgert olnbogabarn. Það endurspeglast í fjárlögum þegar maður skoðar þau langt aftur í tímann að skólinn hefur verið olnbogabarn. Við fengum að sjá hugmyndir að mjög áhugaverðum teikningum. Þá var tvennt í boði sem mikið hefur verið rætt um. Ég man að eitt af því var Landsbankahúsið hérna hinum megin. Ég hefði haft gaman af því að sjá það verða að veruleika, mér fannst ótrúlega spennandi hugmynd að hafa skólann í miðjum miðbænum í svona mikilli nánd. Ég sá alveg fyrir mér alla sköpunina færast í fangið á, ekki bara þinginu heldur nánasta umhverfinu og það hefði verið svolítið gaman að sjá þetta gamla, fallega hús ná utan um þá starfsemi. Ég hugsa að það verði nú ekki niðurstaðan. Það breytir því ekki að þegar sú ákvörðun er tekin að sameina leiklistarskólann og gamla Myndlista- og handíðaskólann var hugmyndin sú að þessar greinar nytu stuðnings hvor af annarri og yrðu enn þá frjórri heldur en hvor í sínu lagi. Því miður stöndum við enn þá frammi fyrir því að þetta hefur ekki náð að ganga eftir eins og það hefði átt að gera.

Það hefur mikið verið fjallað um, og eðli málsins samkvæmt, hvernig ástand hússins er heilsuspillandi. Við höfum séð myndir í sjónvarpinu og eins og ég sagði fór ég í heimsókn og við fengum að sjá ástandið. Manni féllust hendur við að horfa á þetta. Við fórum þangað í heimsókn 2015, að mig minnir, og ekki hefur ástandið lagast. Mygla hefur komið upp mjög víða í húsnæði sem ríkið og borgin eru með til leigu eða eiga. Fyrir utan það er húsnæði skólans ekki fyrir fatlað fólk. Við fórum til að mynda alveg upp á hanabjálka. Það er alveg ljóst að húsnæðið uppfyllir ekki þær kröfur sem skólastarfsemi ber að uppfylla. Það er svolítið sérstakt að við skulum í rauninni samþykkja það sem þing að ástandið sé svona.

Það er gaman að segja frá því sem kemur fram í umsögn frá formanni Bandalags íslenskra listamanna við fjárlögin 2016, að þrátt fyrir aðbúnaðarleysi og aðstæður fékk Listaháskóli Íslands hæstu mögulega einkunn í úttekt gæðaráðs íslenskra háskóla sem fór fram 2015. Það er auðvitað algjört þrekvirki miðað við stöðuna. Á því ári voru nemendurnir á fimmta hundrað. Þeir bjuggu við það þá að upphæðin sem skólinn átti að fá á fjárlögum 2016, þ.e. níu árum frá því sem var upphafi — það voru 70 nemendur árið 2007 og upphæðin sem skólinn fékk á síðustu fjárlögum, þ.e. 2016 ekki 2017, var sú sama á núvirði og það ár. Það sýnir virðinguna miðað við fjölda nemenda. Þá var meira að segja búið að bæta meistaranámsbrautum ofan á hið hefðbundna nám í hönnun, myndlist, sviðslistum, listkennslu og tónlist, sem er í rauninni ekkert verið að greiða fyrir.

Svo vantar starfsfólk, það vantar kennara, fastráðna kennara. Á tíu ára tímabili frá því 2007 og til ársins í ár hafa einungis tvö stöðugildi fastráðinna starfsmanna bæst við. Það er ekki í takt við fjölgun nemenda. En við vitum það og þekkjum að það er með þessa grein og starfsemi eins og aðra að þar er launakostnaður þungur hluti, eitthvað í kringum 70% af rekstrarkostnaðinum, og húsnæðiskostnaðurinn kannski í kringum 20%, þá sjáum við hvað eftir er. Þetta er því miður mjög víða þannig.

Við töluðum ítrekað máli Listaháskólans á síðasta kjörtímabili, sérstaklega við gerð fjárlaga. Það náði aldrei eyrum fjárlaganefndar þrátt fyrir að nefndin, stór hluti hennar, reyndar ekki öll, færi í heimsókn og sæi ástandið og fylgdist með því frábæra starfi sem fer fram þar. Við komum þarna á miðjum vinnudegi og fengum að sjá hvað var um að vera, en einhvern veginn skilaði það sér ekki til skólans.

Ég verð að taka undir þá spurningu af hverju listnám á háskólastigi skuli einungis vera í boði gegn háum skólagjöldum. Aðrir háskólar búa ekki við það með sambærilegum hætti, þ.e. hinir opinberu háskólar. Þarna erum við að tala líka um sjálfseignarstofnun. Það má einnig velta því fyrir sér af hverju við erum með eina skólann sem sinnir þessu í því formi, af hverju viljum við ekki styðja betur við bakið á honum?

Ég held að við þurfum að reyna með öllu móti að fá þessa tillögu hér í gegn, að það verði niðurstaðan að skólanum verði búið eitthvert framtíðarhúsnæði. Varðandi Laugarnesið hefur hugur staðið þangað. Það er ekki eftir neinu að bíða með að hrinda þessari vinnu í framkvæmd. Eins og ég sagði áðan eru til ákveðnar teikningar, það er til ákveðin hönnun. Það er í rauninni allt til nema það vantar fjármunina til þess að keyra þetta áfram.

Málið fer væntanlega til allsherjar- og menntamálanefndar. Ég vona svo sannarlega að þetta mál nái þar fram að ganga og verði tekið fyrir sem allra fyrst því að það er aðeins verið að fela hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra að kveða á um framtíðarhúsnæði Listaháskólans. Ég held að hann eigi að geta það í ljósi allra þeirra gagna og alls þess sem til er. Hann á að geta tekið þá pólitísku ákvörðun. Þetta snýst um að þora að taka þá pólitísku ákvörðun. Ég vona svo sannarlega að sú verði raunin. Við höldum áfram að berjast fyrir hönd skólans, hvort sem þetta tekst í þessari atrennu eða ekki.