146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[19:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Mér finnst þetta góð ábending um að gera einhvers konar áætlun eða gera meira í því hvað varðar það að fötluð börn eru í aukinni hættu á því að verða beitt ofbeldi. Líkt og hv. þingmaður vísaði í hafa verið gerðar margar rannsóknir. Það hafa verið gerðar rannsóknir á Íslandi en einnig fjölmargar erlendrar rannsóknir sem sýna að svona er þetta, því miður. Það er náttúrlega ekkert voðalega langt síðan við vorum hér í sérstakri umræðu að ræða skýrsluna um Kópavogshæli. Það er eitthvað sem gerðist í fortíðinni en því miður er það svo að fötluð börn eru í aukinni hættu á því að verða beitt ofbeldi og það er ekki bara inni á heimilum heldur er það úti um allt í samfélaginu sem þessi hætta er, í skólakerfinu, í frístundakerfinu og á alls konar stofnunum. Þetta er eitthvað sem við þurfum að hugsa verulega um hér og nú.

Ég held að mikilvægt sé að styðja og fræða foreldra fatlaðra barna en ég held að það sé ekki síður mikilvægt að styðja og fræða alla hina sem vinna með fötluðum börnum, einmitt vegna þess að við viljum að fötluð börn séu þátttakendur í samfélaginu á nákvæmlega sama hátt og öll önnur börn. Þá þurfa allir sem koma að uppeldi þeirra og samskiptum við þau líka að vera meðvitaðir um það að þetta er sérstakur áhættuþáttur.