146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[16:05]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er vissulega áhugavert að skoða þessa fjármálaáætlun. Í henni er gert ráð fyrir ákveðnum hagvexti samkvæmt þjóðhagsspá en þar er einnig gert ráð fyrir verðbólgu. Á árinu 2018 á að vera 3% hagvöxtur og 3,2% verðbólga. Verðbólgan étur í rauninni upp hagvöxtinn. Árið 2022 á að vera 2,6% hagvöxtur og 2,5% verðbólga, hún étur í rauninni upp hagvöxtinn líka. Samhliða þessu er munurinn á framlögum til háskólastigsins 2017 og 2022 6,7%, þ.e. framlög til háskólastigsins 2022 eru 6,7% hærri en fjárlög 2017. Miðað við hagvöxt og verðbólgu er erfitt að sjá hvernig þetta teljast umtalsverð fjárframlög til háskólastigsins.

Snúum okkur að heilbrigðismálum, hagvöxturinn er 19,4% eða eitthvað svoleiðis í heildina og þá eiga framlög til heilbrigðismála að aukast um 22,4% til málefnasviða sjúkrahúsþjónustu, heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu og og lyfja og lækningavara. Ef lyf og lækningavörur eru tekin út fyrir sviga þar eru framlög til heilbrigðismála jafn há og hagvöxturinn og þá á eftir að taka tillit til verðbólgunnar.

Ég get ekki séð hvernig þetta eru rosaleg aukin framlög til heilbrigðismála. Þetta fylgir þeirri þróun sem við horfum fram á. Til að ná þessum markmiðum hérna verður samkvæmt fjármálaáætluninni að skera niður á mörgum öðrum málefnasviðum.