146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:47]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Já, þetta er með öllu óskiljanlegt. Hvers konar samkomulag er verið að gera á milli þingflokksformanna eins og hv. þm. Birgir Ármannsson vitnaði til úr pontu Alþingis áðan? Hvers konar samkomulag er verið að gera milli þingflokkanna þegar það heldur ekki, þegar stjórnarliðar hafa engan áhuga á að taka þátt í umræðum um fjármálaáætlun ríkisstjórnar sinnar til næstu fimm ára? Hvers vegna getur fólk þá ekki komið fram á heiðarlegan og hreinskilinn hátt og sagst ekki vilja taka þátt í þessum umræðum og gefið okkur hinum meira svigrúm og rými til að koma fram spurningum og taka þátt í umræðum við hæstv. ráðherra sem hér eru?

Þetta er með öllu óskiljanlegt. Svona vinnubrögð ganga ekki upp. Ég kalla eftir því að stjórnarflokkarnir virði það samkomulag sem gert var hér í gær og að það haldi. Það er lágmarksvirðing.