146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:56]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég má til með að taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað. Mér þykir mjög leitt að heyra að hér sé ekki tími okkar allra virtur á þessu þingi og þeir samningar sem gerðir hafa verið um málfrelsi þingmanna við þetta mikilvæga mál. Ég tel það lýsa því ágætlega hvers konar stimpilstofnun þingmenn meiri hlutans álíta sig vera fyrir mál hæstvirtra ráðherra sinna þar sem þeir telja sig enga ástæðu hafa einu sinni til að ræða málin fyrir framan þing og þjóð heldur líta svo á að þeir geti bara setið hér þöglir og leyft málunum að renna í gegn í öruggri vissu um að þeir muni kjósa eins og stilltir tindátar en ekki ræða málin af einhvers konar áhuga við hæstvirta ráðherra. Ég kalla eftir hv. þingmönnum stjórnarmeirihlutans sem álíta sig ekki vera stimpilstofnun meiri hlutans.