146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[14:13]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kem eingöngu hingað upp til að bregðast við orðum hv. þm. Björns Levís Gunnarssonar þar sem ég lýsi yfir miklum vonbrigðum og í raun hneykslan á að heiftin sé orðin slík og ég ætla að leyfa mér að segja einhvers konar rökþurrð í málinu þegar verið er að brigsla glænýjum þingmönnum í þessum sal sem eru varla búnir að vera í eina mínútu og gera mistök — að nota það sem rök í því að þá sé augljóslega verið að hamla eða stýra einhverju. Við höfum öll verið ný í þessum sal. Kosningakerfið er gert þannig að það sé hægt að ýta á aðra takka áður en atkvæðagreiðslu er lokið, einmitt út af mistökum sem þessum. Við höfum öll gert mistök í þessum sal. Mér finnst vægast sagt lélegt að nota þau sem rök um að hér séu allir einhvers konar stimpilpúðar eða hvað það er.