146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:19]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að heyra að meiri hlutinn hefur ákveðið að verða við beiðni okkar, það hefði verið óskandi að það hefði verið fyrr þannig að við hefðum ekki þurft að standa hér og ræða það, þó að þingmaðurinn telji að það sé ágætissjónvarp.

Svigrúmið og ramminn sem við höfum sem þingmenn er algjörlega skýr, það er stjórnarskráin. Það er það sem við höfum. Ég vil minna þingmanninn á að við í allsherjar- og menntamálanefnd erum að fjalla um mál — ég hafði óskað þess að við hefðum gefið því máli aðeins betri gaum í stað þess að vera að flýta okkur að draga það út úr nefndinni eins og við gerum hér — sem snýr að banni við mismunun. Við viljum einmitt stuðla að því að fólk í sambærilegri stöðu njóti sambærilegra réttinda.

Hér er minni hlutinn ekki að leggja til að allir fái námslán. Við erum einfaldlega að segja að allir framhaldsskólar eigi að hafa sömu tækifæri til að bjóða upp á almennt bóknám á ákveðnu hæfniþrepi, sem fellur undir aðfaranám. Það er það sem við erum að kalla eftir, að við gerum eins og okkar eftirlitsstofnun, eftirlitsstofnun Alþingis, lagði til en hlaupum ekki eftir hentistefnu eins ég nefndi sveltistefnu ráðherrans.