146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[18:34]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Mér þykir þetta afar áhugaverð umræða og ekki síst orð hv. þm. Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur hér áðan. Það þarf ekki meira til þess að málið verði tekið aftur til nefndar. Það vona ég að formaðurinn ákveði að gera þar sem sú formlega ósk hefur komið hér úr pontu, því að þessi vinnubrögð eru engan veginn ásættanleg. Ég velti því fyrir mér, eins og minni hlutinn í nefndinni hefur rakið hér, að hér er verið að styðja við einkareknu skólana umfram aðra, eins og núverandi ríkisstjórn hefur því miður mikla tilhneigingu til. Við horfum hér upp á stórslys í því samhengi. Í áliti meiri hlutans hérna, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn áréttar að með frumvarpinu er ekki verið að leggja til breytingar á núverandi framkvæmd heldur að fá lagastoð fyrir henni.“

Í staðinn fyrir að gera almenna bragarbót á lögunum ætlar ríkisstjórnin að viðhalda þessu ástandi. Ég verð nú að nefna það sem fram kemur í umsögn nemendafélags Tækniskólans, af því að sá skóli hefur verið töluvert til umræðu. Mér finnst þetta áhugavert. Ég ætla að fá að lesa aðeins upp úr því, með leyfi forseta:

„Nemendafélaginu finnst áhugavert að sjá að nám á framhaldsskólastigi sé kennt innan háskólanna, af hverju er það ekki kennt innan framhaldsskólanna? Okkur finnst eins og þetta frumvarp sé til þess komið [sic] að hylja yfir 25 ára regluna sem samþykkt var í fjárlögunum árið 2015, þar sem nemendum 25 ára og eldri var ekki hleypt lengur inn í framhaldsskólanna í bóklegt nám. Finnst háttvirtum [sic] mennta- og menningarmálaráðherra þetta frumvarp leysa þann vanda að svo stöddu? Að senda þessa einstaklinga sem 25 ára og eldri eru í dýra, einkarekna skóla eins og Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst eða Keili?“

Svo kemur hér reyndar líka fram að nemendafélaginu finnist það skjóta skökku við að ráðuneytið skuli ekki hafa leitað til háskólanna, menntaskólanna eða framhaldsskólanna áður en þetta frumvarp var lagt fram. En það er kannski eins og með svo margt annað sem því miður einkennir núverandi stjórnvöld, að ekki er leitað álits nokkurs sem málin varða hverju sinni, samanber umræðu um þennan skóla þaðan sem þessi umsögn kemur, eða varðandi Fjölbrautaskólans við Ármúla um þá sameiningu sem virðist vera ákveðin, þó að ráðherra hafi nú reynt að bera það af sér í morgunútvarpi í morgun og finnist við vera að „fjaðrafokast“ hér með umræðuna.

Auðvitað eigum við fyrst og síðast að hugsa lánasjóðinn sem jöfnunartæki. Lánasjóðurinn á að vera jöfnunartæki til þess að öllum sem vilja stunda nám sé gert það kleift. Það er ekki bara fyrir suma. Það á ekki að vera þannig að í framhaldsskólum eða í einhverju slíku námi þar sem fólk undirbýr sig undir háskóla, að það hafi ekki sömu tækifæri og aðrir af því að það býr ekki í nágrenni við þá skóla sem hér eru upptaldir og bjóða þetta aðfaranám, en það er samt þannig. Við búum í samfélagi sem er þess eðlis þó að fjarnám hafi sem betur fer aukist gríðarlega mikið, sem er af hinu góða, en. Það kostar þó líka sitt, sem betur fer þó miklu minna en einkareknu skólarnir, og gerir fólki kleift að stunda nám í heimabyggð. En það breytir því ekki að þeir sem vilja vera innan skólakerfisins þurfa að taka sig upp og flytja ef þeir þurfa fyrirgreiðslu. Það getur ekki talist jafn réttur til að stunda nám ef maður þarf að flytja á suðvesturhornið til þess að undirbúa sig undir háskólanám af því að maður hefur ekki tök á því í heimabyggð nema maður fái einhvers konar fyrirgreiðslu. Jöfnun á námskostnaði dugar náttúrlega mjög skammt ef maður þarf að taka sig upp og flytja. Það þekkjum við sem eigum börn sem hafa þurft að sækja skóla langt í burtu.

Ég sendi mína krakka t.d. annars vegar á Laugar og hins vegar hér í Verzlunarskóla Íslands. Ég tala af reynslu hvað það varðar. Mér finnst það bara mjög mikilvægt að þeir sem fara fyrir þessu máli átti sig á því að þeir eru að búa til mismunun og festa hana lög. Hafi mismununin verið til 40 ára án þess að það væri í lögum þá eigum við ekki að festa hana í lögum. Það getur ekki verið ásættanlegt.

Í umsögninni er talað um að margir eldri þingmenn átti sig ekki á þróuninni sem átt hefur sér stað síðustu ár í kerfinu. Ég verð að segja að ég tel formann allsherjarnefndar nú ekki vera eldri borgara. Ég tel að hún eigi alveg að vita um hvað málið snýst. Ég held að nefndin sé ekkert háöldruð þannig að þessar athugasemdir sem þarna eru fram settar eigi nú alveg að geta skilað sér til nefndarmanna.

Ég verð að taka undir það sem hér kemur fram og við höfum margoft rætt, um aukin geðræn vandamál og annað slíkt, sem verða þess valdandi að fólk hættir í námi tímabundið, það sækir sér e.t.v. nám síðar á lífsleiðinni og velur þá kannski þetta úrræði vegna þess að það þarf á fjárhagslegum stuðningi að halda. Þá er verið að skerða réttindi bæði þessa hóps og annarra sem myndu kannski eiga þess kost að fara í ódýrara nám. Það er auðvitað mikilvægt, eins og hér hefur verið haldið til haga, að það nám veitir bara réttindi í þá skóla sem hér um ræðir. Maður fær ekki réttindi til þess að fara í Háskóla Íslands eða Háskólann á Akureyri. Maður þarf hugsanlega að bæta við sig 200 framhaldsskólaeiningum frá þessum skólum, sem maður nær sér þó í í gegnum þetta nám. Það er gott að fólk átti sig á því. Ég veit til þess að fólk hafi ekki áttað sig á því fyrr en of seint. Það hefur verið komið af stað í nám áður en það áttaði sig á því.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra, virðulegi forseti. Mér finnst bara ástæða til þess að þegar við erum að gera breytingar á lögum eigum við að gera þær í átt að auknu jafnræði, ekki í átt að aukinni mismunun. Fyrir það virðist þessi ríkisstjórn ætla að standa, að auka bilið á milli fólks. Það munum við aldrei samþykkja, Vinstri græn.