146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[19:04]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Þetta hafa um margt verið áhugaverðar umræður. Ég ætla samt sem áður að gerast svo brött að ræða um frumvarpið sem hér er fyrir framan okkur. Mig langaði einfaldlega að árétta að við í minni hlutanum höfum að sjálfsögðu meðtekið það að send hefur verið beiðni til ríkislögmanns um að hann gefi okkur álit á því hvort þetta frumvarp standist stjórnarskrá. (EyH: Og við þökkum það.) Já, við þökkum það að orðið hafi verið við þeirri beiðni okkar.

Það sem við erum ósátt við er að ekki hafi verið álitið svigrúm til að bíða álits ríkislögmanns, ekki einu sinni bíða svars ríkislögmanns um hvort hann hyggist gefa álit eða ekki, áður en málið var tekið fyrir nefnd og óvíst er hvort þetta svar berist áður en afgreiða á þetta mál sem lög frá Alþingi. Gerum við það án þess að fá nokkurt sérfræðimat á því hvort þessi lög standist stjórnarskrá finnst mér það ábyrgðarlaust af okkur og að sjálfsögðu mögulega stangast á við stjórnarskrá. Þannig að það væri ekkert voðalega frábært.

Frú forseti. Ég sé enga sérstaka ástæðu til að lögfesta þetta mál núna. Það hefur verið talað um að breytingartillögur minni hlutans séu grundvallarbreyting á því sem þetta einfalda frumvarp eigi að fela í sér og þar af leiðandi eigi ekki að virða það viðlits; að þetta feli í sér grundvallarbreytingu á því hvernig LÍN hagar lánveitingum sínum og að aðeins sé verið að lögfesta þá praxís sem verið hefur í gangi í 40 ár fram á haust þegar heildarendurskoðun getur átt sér stað.

Efasemdir okkar í minni hlutanum snúa að því að þá séum við að lögfesta mismunun í þessi lög. Ég tel að við ættum að fara afskaplega varlega í lagasetningu sem gæti gert það að verkum að við séum að mismuna fólki. Þar sem þetta fyrirkomulag hefur verið stundað í 40 ár án lagastoðar er engin ástæða til að setja lagastoð undir það núna, fyrst við getum ekki sameinast um að gott væri að hafa jafnræði í huga við þá lagasetningu. Það er engin ástæða til bíða ekki bara fram á haust, fram að heildarendurskoðun, þar sem við getum þá haft heildarmyndina í huga um það hvernig við viljum raunverulega standa að lánveitingum til nemenda.

Mér finnst miklu mikilvægara, frú forseti, að vanda til verka og vera ekki að ana að því að setja lagastoð undir praxís sem hefur viðgengist svona lengi vegna hótana frá LÍN, hótana sem nota bene virðast geta þurrkast út með einu orði frá hæstv. menntamálaráðherra, eða svo skilst mér. Væri ekki bara ráð að hæstv. menntamálaráðherra myndi biðja LÍN um að halda áfram að lána án lagastoðar þangað til heildarendurskoðun getur átt sér stað, fyrst ekki næst sátt um að tryggja að hér sé ekki verið að brjóta stjórnarskrá Íslendinga, mismuna nemendum og bara svona almennt og yfir höfuð að halda áfram að lögfesta enn frekar einkavæðingu í menntakerfinu.