146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

Lánasjóður íslenskra námsmanna.

392. mál
[19:08]
Horfa

Frsm. minni hluta allsh.- og menntmn. (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að koma upp og ítreka þakkir mínar til meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar og sérstaklega til formannsins fyrir að hafa orðið við beiðni okkar um fara yfir þetta frumvarp og þau álitaefni sem snúa að stjórnarskránni. Ég tel líka rétt að fara aðeins betur í gegnum skýrslu Ríkisendurskoðunar, og skýrslur í fleirtölu því að þær eru fleiri en ein hér sem fjalla um þetta mál, og lánshæfi aðfaranáms. Þar segir undir Álitaefni um lánshæfi til náms, með leyfi forseta:

„Fjölmörg álitaefni tengjast lánshæfi náms hjá LÍN. Á undanförnum árum hefur framboð á sérnámi og undirbúningsnámi fyrir háskólanám aukist mikið og innheimta skólar oft skólagjöld vegna þess. Sérstaklega hefur frumgreinanámið skapað ákveðinn vanda fyrir stjórn LÍN og óvissu um hvaða nám telst lánshæft. Að mati Ríkisendurskoðunar fara lánveitingar sjóðsins vegna frumgreinanáms ekki aðeins í bága við meginhugsun 1. og 2. gr. laga um LÍN, nr. 21/1992, heldur einnig gegn jafnræði þeirra sem leggja stund á framhaldsskólanám til stúdentsprófs. Þegar horft er til þess hvernig slíkar lánveitingar hafa þróast undanfarin ár og sérstaklega til áðurnefnds úrskurðar málskotsnefndar LÍN frá 1. maí 2011“ — en það er farið í gegnum hann í þessari skýrslu — „virðist einungis um tvennt að velja: Annaðhvort ber að hætta alveg lánveitingum til frumgreinanáms eða breyta lögum um LÍN í samræmi við framkvæmd og gefa öllum nemendum framhaldsskóla kost á námslánum.

Í viðbrögðum sínum við ábendingum Ríkisendurskoðunar lýsa stjórnendur LÍN sig sammála þessu mati. Þeir draga að vísu ekki í efa mikilvægi þess að fólki, sem lauk ekki stúdentsprófi samkvæmt hefðbundnum leiðum, standi til boða skilvirkar námsleiðir til háskólanáms síðar á lífsleiðinni. Þeir telja hins vegar að slíkt eigi að fela í sér sem minnstan tilkostnað fyrir ríkið og námsmenn sjálfa og benda á að almennt beri fólki að varast að koma sér í of mikla námslánaskuld áður en það hefur eiginlegt háskólanám. Þeir telja því að betra væri að koma undirbúningsnámi í þann farveg að það kalli ekki á lántökur námsmanna. Í þessu sambandi þurfi einnig að hafa í huga þá reglu að veita almennt ekki lán til náms sem leiðir að stúdentsprófi og nauðsyn þess að gæta jafnræðis.“ — Að einhverju leyti má segja að hér sé tekið undir athugasemdir meiri hlutans — „Lausnin eða hluti af henni gæti falist í því að námið væri veitt á kvöldin í framhaldsskólum landsins.“

Í frumvarpi sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir lagði fram þegar hún gegndi embætti menntamálaráðherra var einmitt hugað að því að mæta þeim athugasemdum og setja inn skýrari lagaramma. Þar var horft til þess að veitt væri framfærslulán en ekki skólagjaldalán fyrir þessu námi. Það er líka mjög athyglisvert þegar horft er til upplýsinga í skýrslu um frumgreinanám hvað kostnaður nemenda er mismunandi á milli þessara þriggja skóla sem bjóða upp á slíkt nám.

Ég vil fá að nefna í ljósi þess að það virðist vera vilji manna, eða vonandi verður tekið tillit til tillagna okkar núna við afgreiðslu málsins, en ef við höfum þetta í huga, mikilvægi þess að reyna eins og hægt er að draga úr skuldsetningu nemenda, þá kemur fram í tölum sem birtast í skýrslu um frumkvöðlanámið að námið er ódýrast í Háskólanum í Reykjavík, þar á eftir er það Háskólinn við Bifröst og síðan Keilir. Það má segja að Háskólinn á Bifröst og Keilir séu mjög sambærilegir þegar kemur að fjarnámi og staðarnámi. Háskólinn í Reykjavík býður hins vegar upp á hagkvæmasta námið hvað þetta varðar.

Ég held að þessi umræða í kvöld sýni það einfaldlega að við hefðum átt að vinna þetta mál aðeins betur. Við hefðum átt að gefa okkur aðeins betri tíma í nefndinni til að ræða það. Ég hef reynt að iðka ákveðna starfshætti. Við undirritum náttúrlega öll eið að stjórnarskránni en það er líka mjög mikilvægt að mínu mati að reyna eins og hægt er að fylgja eftir ábendingum eftirlitsstofnana sem eru stofnanir okkar á Alþingi, sem vinna fyrir okkur. Við fjöllum um skýrslurnar þeirra. Þær koma inn í þingið. Þingið hefur fjallað um og ályktað um þær skýrslur. Við ættum ekki að hlaupa allt of mikið á eftir ráðuneytinu eða ráðherra varðandi þetta.

Ég bind vonir við að nefndin muni nýti tækifærið á nefndadögum til að finna hvað það er sem við getum náð saman um, að reyna tryggja jafnræði framhaldsskólanema með sem bestum hætti, að við styðjum áfram við þá sem af einhverri ástæðu hafa ekki getað lokið hefðbundnu framhaldsskólanámi, en að sama skapi séum við ekki að mismuna nemendum. Ég held að það sé hægt að finna lausn á þessu. Það er eitt af því sem ég mun ræða við minni hlutann, hvort ekki sé rétt í framhaldi af því að við drögum breytingartillögur okkar til baka fyrir 3. umr. í þeirri von að hægt verði að ná góðu samtali í nefndinni um þetta mál.