146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:16]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég ætlaði að láta staðar numið við þetta andsvar mitt en ég hjó eftir því, og held að ég hafi tekið rétt eftir, að hv. þingmaður talaði um víðtækari bílastæðagjöld, að þau yrðu nýtt til frekari innviðauppbyggingar en sem birtist í frumvarpinu. Mig langar að spyrja: Tók ég rétt eftir því? Ef svo er, og nú veit ég að ég er að spyrja hv. þingmann út í persónulegar skoðanir hans í málinu en hann er náttúrlega einn af stjórnarþingmönnum: Telur hv. þingmaður að fara eigi í útvíkkun á þeim bílastæðagjöldum sem um er rætt hér? Hvað á hv. þingmaður við með víðtækari bílastæðagjöld? Ég var ekki endilega að vísa til bílastæðagjalda þegar ég spurði hv. þingmann út í tekjur sveitarfélaga. Ég veit að það tengist ekki nákvæmlega efni frumvarpsins en tilefni frumvarpsins er engu að síður, eins og kemur skýrt fram í nefndarálitinu, að tryggja sveitarfélögunum auknar tekjur til að standa straum af kostnaði við innviðauppbyggingu. Til þess eru ýmsar leiðir aðrar en bein gjöld, bílastæðagjöld, víðtækari bílastæðagjöld, þjónustugjöld, hvaða nafni sem þau nefnast. Ég var í raun að spyrja almennt um það en af því að hv. þingmaður talaði sérstaklega um víðtækari bílastæðagjöld, sér hv. þingmaður fyrir sér að það sé næsta skref, að útvíkka þá heimild sem hér er, koma á víðtækari bílastæðagjöldum? Hvernig sæi hann þau fyrir sér?