146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

umferðarlög.

307. mál
[20:18]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Pawel Bartoszek) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá ætla ég að skýra orð mín. Með víðtækari meinti ég ekki endilega í þeim skilningi að þeim verði beitt á fleiri stöðum heldur í þeim skilningi að þau mætti nota til fleiri hluta en uppbyggingar. Ekki einungis þjónustugjöld heldur þá skattur, eða hvað það myndi heita, sem hefði í för með sér að nýta mætti þau til uppbyggingar annarra innviða á vegum sveitarfélagsins. Það var það sem ég átti við. Ef fram kæmu slíkar hugmyndir er ég líklegur til að vera stuðningsmaður þeirra. Ég er ekki þar með tilbúinn til að gefa loforð um að ég muni styðja allar aðrar mögulegar hugmyndir að tekjuöflun fyrir ríki eða sveitarfélög því að ég tel að tekjuöflun fyrir ríki og sveitarfélög geti verið mishagkvæm. Ég held að þetta tiltekna dæmi um tekjuöflun sé mjög grænt og mjög hagkvæm tekjuöflun sem auk þess felur í sér mjög jákvæða hvata á mörgum stöðum.

Með víðtækari á ég við víðtækari notkun á því fé sem aflast. Ég er jákvæður fyrir þeim hugmyndum að auka tekjur sveitarfélaga með þeim hætti en er ekki endilega sjálfkrafa jákvæður fyrir öllum hugmyndum sveitarfélaga um að auka tekjur.