146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[22:47]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður sé að búa sér til einhverja strámenn þegar hann heldur því ítrekað fram að okkur þyki tálmun annars foreldris ekki vera brot gegn barni. Það er bara alls ekki raunin. Hins vegar höfum við, ég og fleiri hv. þingmenn, bent á að þau viðurlög sem hv. þingmaður leggur til séu ekki endilega besta leiðin. Mér þykir í raun og veru óæskilegt að þetta mál fari áfram í núverandi mynd því að ég tel að við þyrftum að horfa miklu heildstæðar á þennan málaflokk og hvernig vinna á í honum, frekar en að leggja bara fangelsisrefsingu við þessu máli og kalla það dautt því að þá séu komin einhver viðurlög og þá sé hægt að bregðast við. Hér hefur komið fram að það eru ýmis viðurlög nú þegar sem hægt er að beita. Hins vegar vitum við að það vantar meiri stuðning fyrir fjölskyldur. Við vitum að það vantar frekari úrræði á fyrri stigum svona deilna. Það vantar betri meðferðarúrræði, betri samningsúrræði, betri sáttamiðlunarúrræði. Þau þurfa meira og betra fjármagn, betri stuðning. Ég tel að það væri miklu æskilegra að byrja þar. Þess vegna lagði ég til við hv. þingmann að hann breytti þessu í þingsályktunartillögu þar sem hægt væri að gera heildarúttekt á því hvað þyrfti að gera til að þessi málaflokkur stæði vel, eins og aðrir í barnaverndarmálaflokknum, og svo vel væri að honum staðið.

En fyrst hv. þingmaður getur í raun sætt sig við hvaða breytingu sem er á viðurlögum hvað þetta varðar svo lengi sem viðurlög séu í þessu efni, er honum þá ekki ljúft og skylt að leggja fram þingsályktunartillögu sem felur fagráðherra að sjá um að hafa heildræna nálgun á þetta vandamál frekar en að leggja hér til í einni andrá fangelsisrefsingu við tálmunum sem eru svo ekki skilgreindar nánar í lögum, hvað svo sem segir í greinargerð frumvarps hv. þingmanns?