146. löggjafarþing — 78. fundur,  1. júní 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[02:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka hv. þingmönnum fyrir umræður um þessa fjármálaáætlun. Fjármálaáætlunin er metnaðarfull og framsækin en um leið aðhaldssöm. Hún bætir fé í marga málaflokka, styrkir velferðarkerfið og styrkir samgöngukerfið. Ég get vel skilið að marga þingmenn fýsi að leggja meira í hina ýmsu málaflokka. Það viljum við öll, við viljum leggja gott til mála. En við erum í þeirri stöðu að við þurfum að forgangsraða. Það hefur verið bent á form áætlunarinnar og það að við erum að læra. Við erum að læra saman og ég hef svo sannarlega verið tilbúinn að læra af þeim ábendingum sem hv. þingmenn hafa komið með. Ég er ánægður með að við skulum nú vera að ná þessum áfanga.