146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:13]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Í fyrsta lagi er það þannig að við fengum ekki fullnægjandi rökstuðning. Á annan bóginn er rökstuðningurinn einvörðungu á þann veg að ráðherra hafi ætlað að flytja fólk til út af reynslu af dómarastörfum. Síðan kemur í ljós að það stenst ekki skoðun. Mér finnst það eitt og sér að verið sé að breyta stöðlunum eftir á vera vanvirðing við störf nefndarinnar. Það er líka vanvirðing við þá sem sóttu um þessa vinnu. Þeir sem sóttu um þessa stöðu sóttu um hana út frá ákveðnum forsendum. Það stóð hvergi að það ætti að hífa einhvern tiltekinn hluta upp eða niður fyrir eða eftir. Það var mjög skýrt að verið væri að leita eftir breiðum hópi af fólki.

Ég get alveg skilið að ráðherrann hafi ef til vill verið að reyna að gera það, en það kemst ekki nægilega vel til skila í þeim rökstuðningi sem við fengum á minnisblaði frá ráðherra til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar kemur einvörðungu fram að ráðherra líti til langrar og farsællar reynslu af dómarastörfum. Að því leyti til finnst mér þetta ekki vera fullnægjandi. Þess vegna höfum við verið að kalla eftir frekari rökstuðningi frá ráðherra.

Fyrst ég hef hv. þingmann hér langar mig að bera undir hann eina spurningu. Mig langar að spyrja hann að því hvort hann hafi stutt breytingartillögu Hreyfingarinnar um að aukinn meiri hluta þingmanna þyrfti til að samþykkja breytingartillögur ráðherra á nákvæmlega þessu tiltekna máli.