146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[14:17]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ef við ætlum að fara út í þetta með núll, einn, tveir, þrír, fjórir, fimm, sex, sjö, átta, níu og tíu þá er vert að hafa í huga að þeir aðilar sem voru færðir niður, og þá sér í lagi sá sem var efstur af þeim sem voru færðir niður, höfðu dómarareynslu. Það voru aðilar sem voru neðar á listanum, sem höfðu verið valdir, sem voru ekki með eins mikla dómarareynslu. Ég nefni það sem dæmi ef við ætlum að fara út í þessi litlu atriði. Faglegar forsendur skipta höfuðmáli. Unnið hefur verið út frá ákveðnu verklagi lengi. Það kom fram í svari formanns dómnefndar að það hefur legið fyrir í langan tíma hvernig svona ákvarðanir eru teknar, þetta er ekkert nýtt.

Það sem ráðherra hefði átt að gera, til að þetta væri hafið yfir allan vafa, er að koma þeim tilmælum, eins og ráðherra getur gert, til dómnefndar fyrir fram að hún hygðist leggja sérstaka áherslu á tiltekna þætti og þá hefði það legið fyrir. Ráðherra hefði til dæmis getað breytt reglunum í kringum þetta verklag. Það var ekki gert.

Á síðasta kjörtímabili sátu tveir ráðherrar Sjálfstæðisflokksins um stund sem innanríkisráðherrar. Það voru tveir ráðherrar sem lögðu mjög mikið á sig til að þetta ferli yrði hafið yfir allan vafa. Svo er ekki lengur. Það er dapurlegt. Það er svo hryggilegt. Meira að segja fyrrverandi dómsmálaráðherra, sem sagði af sér, lagði meira á sig til að tryggja að hér yrði faglega staðið að verki í sátt við þing og þjóð.