146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegur forseti. Það er ánægjulegt að koma til þessarar umræðu og sjá hve mikla athygli ræða mín vekur hér strax í upphafi. Mig langar aðeins til þess að koma inn í umræðuna fyrir hönd Bjartrar framtíðar. Eins og forseti veit á Björt framtíð ekki skipað sæti í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, en Björt framtíð á aðkomu að ríkisstjórn og við höfum fylgst með málinu hjá dómsmálaráðherra. Sömuleiðis hef ég komið að því sem einn af flokksformönnum hér á þingi og við höfum fylgst mjög vel með þessari vinnu og umræðu.

Vegna þess að mér finnst umræðan, bæði almennt síðustu daga en ekki síst hérna í þingsal, hafa farið dálítið vítt og breitt um sviðið, langar mig aðeins að velta fyrir mér í hvaða stöðu við erum og hver tilgangur Alþingis er í þessari vinnu. Hér er verið að stíga eitt stærsta skref í íslensku dómstólakerfi um áratugaskeið, þ.e. við erum að setja hér upp nýtt dómstig sem er þriðja dómstigið, áfrýjunardómstóll. Það er nú eitt af því sem verið hefur í umræðunni í gegnum áratugina að hafi skort á hjá okkur og er því mjög mikilvægt að vandað sé til verka. Góða upplifunin hefur verið sú síðustu árin að ríkt hefur mikil sátt, mikil samvinna á Alþingi og í nefndum Alþingis við undirbúning þess að setja á fót hið nýja dómstig og setja upp Landsrétt og umbúnaðinn um hann.

Það er einstakt að við séum í þeirri stöðu að skipa í fyrsta skipti á nýju dómstigi heilan rétt, þ.e. það er ekki bara verið að skipa dómara, eins og hefur auðvitað gerst og gerist reglulega í dómskerfinu þar sem dómarar eru skipaðir, og dómarar hætta störfum reglulega. Hér er verið að skipa heilan rétt í einu lagi. Þess vegna erum við með þetta sérstaka fyrirkomulag, þennan sérstaka neyðarhemil, vil ég kalla, að ákvörðun ráðherra, sem óvefengt er að ber ábyrgð á þeirri ákvörðun að skipa í réttinn — og ég fagna því reyndar að hafa hæstv. ráðherra sem hefur sérstaklega fjallað um og fagnað því að bera þessa ábyrgð, vegna þess að mér finnst það mikilvægt að hún sé skýr. Ákveðið var í lögunum að hafa þann neyðarhemil að Alþingi kæmi að ákvörðuninni eða réttara sagt hefði í raun neitunarvald gagnvart þessari ákvörðun ráðherra vegna þess hversu einstakt það er að verið sé að skipa heilan dóm í einu lagi. Þó svo að í þessu friðsama lýðveldissamfélagi sem Ísland er svo sannarlega og við erum ánægð með og fögnum, þá sýnir sagan okkur það og reynslan frá ýmsum löndum, jafnvel löndum sem við miðum okkur við og eru í nágrenni okkar, að það er ákveðinn vandi á höndum þegar mögulega einn aðili eða einn stjórnmálaflokkur, einn stjórnmálaflokkur, getur tekið afdrifaríka ákvörðun sem í gæti falist einhvers konar valdníðsla. Þá er mjög mikilvægt að hafa neyðarhemil, neitunarvald einhvers staðar til þess að grípa í ef sú er tilfinningin.

Mér fannst mjög athyglisvert að hlusta á ræðu hv. þm. Pawels Bartoszeks hér fyrr í dag þar sem hann velti fyrir sér ábyrgð sinni sem þingmanns. Ég hef glímt við sömu hugsun og við höfum rætt þetta innan þingflokks Bjartrar framtíðar hver sé raunveruleg ábyrgð okkar í þessari stöðu. Það er alveg ljóst að Alþingi og alþingismenn eru ekki fagleg matsnefnd gagnvart umsækjendum. Það er ekki okkar verk að velja einstaklinga eða ákveða hæfi einstaklinga af sjálfsdáðum hér á Alþingi, enda er ljóst að hlutverk okkar er bara að hafna eða samþykkja lista frá ráðherra. Það er sum sé okkar hlutverk fyrst og fremst að fylgjast með, að rannsaka og skoða hvernig ákvörðunin er rökstudd, hvernig tillaga hæstv. ráðherra er rökstudd sem hún hefur skilað til forseta Alþingis. Þar vil ég taka undir með fleirum sem hafa talað hér og taka undir grunnstefið í nefndaráliti meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að ég er ánægður með rökstuðning ráðherra. Hann byggir á vinnu hæfnisnefndar sem, eins og hefur svo oft verið rætt í þessum stól, skilaði 117 síðna greinargerð þar sem allir umsækjendur voru metnir. Þar kemur fram að 33 af umsækjendunum hafi verið metnir hæfir til þess að sitja í Landsrétti. Hæstv. ráðherra hefur rökstutt að hún telji að fleira eigi að koma til álita þegar ákveðið sé hverjir skuli metnir hæfastir og hverjir skuli tilnefndir. Rætt hefur verið um dómarareynslu. Sömuleiðis hefur verið rætt, og var rætt í umræðunni hér þegar Alþingi setti þessa umgjörð, að ástæða væri til þess að horfa m.a. til kynjasjónarmiða þegar verið væri að stíga þetta risastóra skref.

Mig langar aðeins að stoppa við það því að mér finnst það skipta miklu máli. Auðvitað eru lögfræðileg þekking og fræðileg geta, dómarareynsla, reynsla af fræðistörfum og lögfræðistörfum lykilatriði þegar kemur að því að meta hæfni dómara. En hér hefur oft verið rætt, og hefur nú verið nokkur samhljómur um það á Alþingi, hefur mér heyrst, um vanda þess að sögulega hafi mjög hallað á konur þegar kemur að skipun í dómstóla. Það má telja á fingrum annarrar handar en ekki tveimur þær konur sem setið hafa í Hæstarétti Íslands. Þar situr einungis ein kona núna. Ég tel að það sé mikilvægt að í það minnsta sé horft til kynjasjónarmiða í skipun á nýju dómstigi. Mér finnst það mikilvægt mál að hæstv. ráðherra leggi hér til lista þar sem jafnvægi milli kynjanna er sem mest. Mér finnst það í alvörunni mjög mikilvægt mál. Auðvitað á það ekki að skyggja á hæfni dómaranna, en mér finnst það mikilvægt skref á 21. öldinni að við skipum nýtt dómstig þar sem nokkurn veginn ríkir kynjajafnrétti.

Ég ítreka að hæstv. ráðherra hefur rökstutt að hún geri breytingar á listanum frá tillögu matsnefndarinnar m.a. vegna þess að hún vilji leggja meiri áherslu á dómarareynslu. Ég tek undir og samþykki þá röksemdafærslu.

Hæstv. ráðherra hefur sömuleiðis bent á að þegar kemur að því að meta hæfni og reynslu allra umsækjenda byggi hún á vinnu matsnefndarinnar sem fram kemur í hinni 117 síðna greinargerð.

Að því sögðu tel ég að hlutverk mitt sem þingmanns og okkar hér á Alþingi sé ekki að vera ný matsnefnd, það sé ekki að taka ákvörðun um hverja skuli skipa í nýjan landsrétt. Okkar ákvörðun felst í því að vera með neitunarvald, að samþykkja eða hafna þeim lista sem ráðherra leggur fram. Ráðherra ber ábyrgð á skipun í dóminn. Í því efni tel ég að mitt meginhlutverk sé að ákveða hvort ég sé sáttur við þann rökstuðning sem ráðherra hefur komið með fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, að ég er sáttur við þann rökstuðning. Ég er sáttur við þá vinnu.

Ég verð að segja eins og er, og sú trú styrkist nú frekar en ekki við umræðuna hér í dag, að ekki er í augsýn að það myndist breið þverpólitísk sátt um þetta lykilatriði sem er í umræðunni. Lykilatriðið í umræðunni í dag er: Teljum við að rökstuðningur hæstv. ráðherra sé nægjanlegur eða teljum við ekki að hann sé nægjanlegur? Það er í raun og veru staða okkar hér á Alþingi. Ég sé því miður ekki að við munum tala okkur niður á að ná breiðri pólitískri sátt eða samþykki um það lykilatriði. Ég heyri að það er nokkuð djúpstæður ágreiningur um það.

Mér fannst margt gott í nefndaráliti minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þar kemur m.a. fram, svo ég vitni, með leyfi forseta:

„Minni hlutinn deilir ekki um að ráðherra hefur heimild til að víkja frá mati dómnefndar svo fremi sem meiri hluti Alþingis samþykki þá tilhögun.“ Sem við eigum auðvitað eftir að gera.

Fram kom í máli hv. þm. Sigurðar Inga Jóhannssonar fyrr í dag að hann væri sammála því mati ráðherrans að niðurstaða eða meðmæli matsnefndarinnar um að tilgreina ákveðna 15 einstaklinga sem hæfasta úr þessum 33 manna hópi sem telst hæfur, væru byggð á nákvæmari vísindum en auðvelt væri að kvitta upp á miðað við að munurinn á matinu á þeim sem talinn var 15. hæfasti og sá sem talinn var 16. hæfasti væri á kommum. Það er rétt, það er varla tölfræðilega marktækur munur. Ég vil taka undir að í þessari stöðu er það óvefengjanlegt að ráðherra hefur heimild samkvæmt lögunum til þess að gera breytingu á tillögu frá matsnefndinni svo fremi sem þær breytingar fela það í sér að leggja til nöfn einstaklinga sem metnir hafa verið hæfir til þess að sitja í Landsrétti. Það á við um þá tillögu sem ráðherra hefur lagt fyrir Alþingi.

Til þess að liðka fyrir og gera umræðuna skemmtilegri þá ætla ég að vona að mér takist að skila eftir nokkrar mínútur fyrir aðra þingmenn til þess að taka þátt í umræðunni. Alveg frá því að tilhögun á þessari skipun var ákveðin, frá því að umræðan var um að setja Landsrétt á fót með lögunum 2010, hefur verið umræða um að gæta sérstaklega að kynjasjónarmiðum í skipun dómsins. Mér finnst það mikilvægt og mér fannst, eins og mjög mörgum öðrum, mjög óþægilegt að sjá þegar núna á vordögum lak út listi yfir meðmæli matsnefndarinnar, hversu mjög hallaði á konur í þeim lista. Ég hef tekið undir það með öðrum vítt og breitt úr hinu pólitíska landslagi hér á Alþingi að það hafi alla vega verið ástæða til þess að skoða það sérstaklega. Ég fagna því þess vegna sérstaklega í tillögu hæstv. ráðherra að þar sé í fyrsta skipti lagt af stað með rétt sem hefur breiða reynslu af hæfu, reynslumiklu fólki af báðum kynjum. Það er gott veganesti fyrir nýjan rétt.

Aftur þakka ég fyrir umræðuna. Hún er mikilvæg. Fyrir okkur alþingismenn er þetta óvenjuleg umræða. Við erum ekki vön því að ræða hér og taka afstöðu til ráðninga eða starfa einstakra einstaklinga, ekki nema umboðsmanns Alþingis og ríkisendurskoðanda, embætta sem heyra beint undir Alþingi. Það er dálítið sérstök staða að tekin sé pólitísk umræða um slíkar ráðningar. En í krafti þess að við erum hér með það hlutverk að vera með neyðarhemil á mögulega valdníðslu ráðherra, sem ber svo sannarlega ábyrgð á ákvörðuninni og á þessari tillögu, þá vil ég segja að ég tek þá ábyrgð mjög alvarlega, svo það sé sagt. Takk fyrir.