146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[15:40]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við stöndum á tímamótum í íslenskri réttarsögu, tímamótum er varða skipun 15 nýrra dómara við glænýtt dómstig, Landsrétt. Í stað þess að gleðjast á þeim tímamótum eru þau sveipuð tortryggni og vantrausti, því miður. Mikið óskaplega er það sorgleg staðreynd að við þessi tímamót hafi ráðherra dómsmála ákveðið sjálf, ein og óstudd, að fara með skipun nýrra dómara í þennan farveg tortryggni og vantrausts sem hér blasir við öllum.

Eins og við vitum felur tillaga ráðherra í sér að fjórir umsækjendur af þeim 15 sem dómnefnd taldi hæfasta eru ekki þóknanlegir ráðherra og aðrir fjórir umsækjendur koma í þeirra stað. Breytingin frá tillögu dómnefndar er því veruleg, enda um meira en fjórðung dómara að ræða sem ráðherra ákvað að taka út úr tillögum dómnefndarinnar.

Virðulegi forseti. Hér er ekki deilt um það að ráðherra hafi heimild til að víkja frá mati dómnefndar, en svo fremi sem meiri hluti Alþingis samþykki þá tilhögun. Þótt ráðherra sé heimilt að víkja frá mati dómnefndarinnar er ráðherra ekki undanþeginn því að velja þá umsækjendur sem þykja hæfastir. Ráðherra er nefnilega ekki undanþeginn því að fylgja þeirri meginreglu stjórnsýslulaganna, sem fjallað hefur verið um í dómum og álitum umboðsmanns Alþingis og byggt hefur verið á hér á landi í réttarhefð í langan tíma, sem kveður á um að skipa skuli þann hæfasta sem völ er á úr hópi umsækjenda. Af hverju er sú regla höfð í hávegum? Jú, af því að þeirri meginreglu stjórnsýslulaganna er ætlað að tryggja almannahagsmuni og sú meginregla uppfyllir jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Því miður er það svo hér í dag að spyrja má hvort ráðherra dómsmála hafi með ákvörðunum sínum um að hunsa tillögur dómnefndarinnar með svo yfirgengilegum hætti og án nokkurra haldbærra röksemda, hvort það leiki ekki verulegur vafi á því hvort dómsmálaráðherra hafi fylgt þeirri meginreglu stjórnsýslulaganna um að tryggja almannahagsmuni og gæta jafnræðis líkt og stjórnarskrá Íslands kveður á um. Það er ekki bara ég sem spyr mig heldur má finna gagnrýni á ákvarðanir ráðherra í vel ígrunduðum umsögnum um málið, bæði frá Lögmannafélagi Íslands og frá Jóhannesi Karli Sveinssyni hæstaréttarlögmanni sem unnið hefur innan réttarkerfisins í 24 ár.

Í þeim umsögnum er skipun ráðherra gagnrýnd með afar skýrum rökstuðningi. Lögmannafélag Íslands bendir á að það sé algerlega óútskýrt af hverju ráðherra ákveður að tilteknir dómarar í hópi umsækjenda séu allt í einu taldir hæfari en þeir sem dómnefndin lagði mat á, algerlega óútskýrt. Eða eins og segir í umsögn Lögmannafélags Íslands, með leyfi forseta, að sú ákvörðun ráðherra sé algjörlega óútskýrð „sem helgast væntanlega af því að slíkt er ekki hægt að útskýra svo hald sé í.“

Lögmannafélag Íslands dregur sterklega í efa „að embættisfærsla ráðherra fullnægi þeim kröfum sem leiða má meðal annars af dómaframkvæmd Hæstaréttar og almennum reglum stjórnsýsluréttar, …“

Í bréfi Jóhannesar Karls hæstaréttarlögmanns bendir lögmaðurinn á að þrátt fyrir að dómsmálaráðherrann hafi ákveðið að víkja verulega frá niðurstöðu dómnefndarinnar hafi ráðherrann ekki fært nein frambærileg rök fyrir því að dómnefndin hafi komist að rangri niðurstöðu með tillögum sínum um nýja dómara. Ekki nein haldbær rök.

Eins og rakið hefur verið bæði hér á Alþingi og annars staðar hefur ráðherrann bara sagt að dómarareynslan eigi að hafa meira vægi, en ráðherrann rökstyður þá skoðun sína ekki nægilega.

Þessi afstaða ráðherrans heldur ekki vatni í eina sekúndu, virðulegi forseti, vegna útafskiptingar ráðherrans á umsækjanda sem var metinn sjöundi hæfasti umsækjandi af dómnefndinni en er hent út af ráðherranum. Og ráðherrann ákveður að taka inn umsækjanda með minni dómarareynslu. Aðrir í hópi umsækjenda sem eftir eru búa yfir minni dómarareynslu en sá umsækjandi sem kastað var út. Hvað útskýrir þessi forkastanlegu vinnubrögð ráðherrans, virðulegi forseti? Kannski bara huglægt mat ráðherrans. Ef það er svo minni ég á að hér er ráðherra ekki að taka ákvörðun um starf sem heyrir beint undir boðvald hennar, heldur er hér um að ræða starf eða stöðu sem heyrir til annarrar greinar ríkisvaldsins og um þær stöður gilda sérstakar reglur um sjálfstæði samkvæmt 1. málslið 61. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta kom skýrt fram í dómi sem féll þann 14. apríl 2011 í máli Árna Mathiesen.

Virðulegi forseti. Hvaða gögn vann hæstv. ráðherra Sigríður Andersen með? Hvaða mælikvarða lækkaði hún til að geta aukið vægi dómarareynslu? Getum við hér í þingsal fengið að sjá þau gögn, því að það hvílir á herðum okkar alþingismanna að velja dómarana? Hvaða málefnalegu rök hefur ráðherra fyrir því að virða að vettugi þá mælikvarða sem dómnefndin setur? Hvaða málefnalegu rök hefur ráðherra í sínum fórum þegar hún ákveður að taka út umsækjanda, sem fagleg dómnefnd metur sjöunda hæfastan af umsækjendum, en mælir með þeim sem nefndin raðar einna neðst á listann samkvæmt sínum mælikvörðum? Sé litið eingöngu til þess að auka vægi dómarareynslu, hvaða rök færir ráðherra fyrir því að mæla ekki með dómara með sjö ára dómarareynslu sem nefndin mælti með?

Um hvað snýst þetta mál, virðulegi forseti? Snýst það um að vera í náðinni hjá ráðherra Sjálfstæðisflokksins? Að standast hið huglæga mat sem dómsmálaráðherrann setur með sjálfum sér? Snýst val á dómurum og fólki í stöður í grunnstofnunum samfélagsins um það að koma sér vel við ráðherra Sjálfstæðisflokksins? Ég vil ekki trúa því. En eiga lögfræðingar sem hafa metnað til dómstarfa að gæta þess að njóta persónulegrar velvildar dómsmálaráðherra?

Virðulegi forseti. Ég hef alið þá von í brjósti að tíminn sé liðinn frá því að það þótti besta leiðin til að verða dómari á Íslandi að vera frændi, sonur eða vinur forsætisráðherra eða formanns Sjálfstæðisflokksins. En ég er hrædd um að með framgöngu dómsmálaráðherra í vali á dómurum nú í glænýtt dómstig þá sé það alveg á hreinu að sá tími er alls ekki liðinn.

Það er því miður ekki annað hægt en að velta því fyrir sér hvort með þessari skipun sé verið að refsa þeim sem hafa viðrað aðrar skoðanir en þær sem eru þóknanlegar Sjálfstæðisflokknum og ráðherrum þess flokks. Í því ljósi er það afar umhugsunarvert hvort þessi embættisfærsla sé fagleg og byggð á traustum grunni. Er það raunin að verið sé að refsa þeim sem ekki eru með nákvæmlega sömu skoðanir og félagar í Sjálfstæðisflokknum? Og eru það skilaboðin sem ríkisstjórnarflokkarnir Viðreisn og Björt framtíð vilja senda út að skoðanafrelsi og tjáningarfrelsi sé í raun og veru haft að vettugi ef þú vilt ná framgangi í þinni grein? Að best sé fyrir þig að vera besti vinur aðals og hlýða freka kallinum, annars er reynsla þín og þekking höfð að engu og framgangur þinn innan þinnar greinar sem þú menntaðir þig til sé algerlega vonlaus. Þetta eru slæm skilaboð, virðulegi forseti, ekki síst til unga fólksins sem er að mennta sig til frama í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Mér finnst ég hafa lesið um svona umræður svo mörgum sinnum áður, því miður. Kannski í þessari ræðu hér, með leyfi forseta:

„Það sem við erum að horfa á er sviðsetning til varnar hagsmunum. […]

Stjórnmálaflokkarnir sjálfir eru þröngar valdastofnanir sem standa ekki lengur fyrir stjórnmálaskoðanir, heldur fyrst og fremst fyrir hagsmunavörslu og þessa hagsmuni verja þeir af oddi og egg. Þeir eru stofnanir, en ekki hreyfingar.“

Þessi ræða sem ég er að vitna í var flutt í ræðustól Alþingis 14. mars árið 1983 af þingmanninum Vilmundi Gylfasyni. Hversu dapurlegt það er að upplifa það að 34 ára gömul ræða á svo smánarlega mikið við í dag 1. júní 2017, virðulegi forseti.

Það er nefnilega svo að ef þessi embættisfærsla dómsmálaráðherra verður að veruleika er það sönnun þess að nýja Ísland er því miður ekki til. Við búum enn þá í gömlu og fúnu Íslandi Sjálfstæðisflokksins. Ný vinnubrögð, sem hér var lofað fyrir kosningar af Bjartri framtíð og Viðreisn, og kjósendur bundu vonir við eru víðs fjarri nú. Víðs fjarri. Hér er um að ræða áframhald á trénuðum vinnubrögðum sem hafa tíðkast undir stjórn Sjálfstæðisflokksins og tíðkast því miður enn. Þau vinnubrögð fá fullan stuðning nýju flokkanna. Fullan stuðning. Slagorðið „kerfisbreytingar og minna fúsk“ í besta falli hlægilegt við þessar aðstæður.

Við upplifum siðferðilegt og hugmyndalegt gjaldþrot ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokksins sem hækjuflokkarnir Viðreisn og Björt framtíð styðja af alefli, styðja við vinavæðinguna, óþægilegheit og pólitíska velþóknun af alefli.

Virðulegi forseti. Hvað finnst þingmönnum Bjartrar framtíðar um það að hér sé ekki iðkuð fagmennska heldur ráðherrafúsk? Þegar kemur að því að greiða atkvæði um þessa tillögu dómsmálaráðherra verður Alþingi að taka afstöðu til þess og kanna hvort ráðherra hafi rannsakað með nægilega vönduðum og ítarlegum hætti af hverju hún víkur frá niðurstöðu dómnefndarinnar. Til þess verður Alþingi að fá fullnægjandi gögn um það að ráðherra hafi rannsakað þetta mál til hlítar þannig að það sé tryggt að þetta nýja mat sé byggt á málefnalegum sjónarmiðum um hæfni umsækjenda. Það hefur ekki verið gert að fullu. Þess vegna getur Alþingi ekki stutt þessa rökleysu um skipun dómara við nýtt dómstig.