148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:12]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég stóðst ekki mátið að koma upp eftir ágæta ræðu hv. þingmanns. Hann fór inn á borgaralaun sem auðvitað geta aldrei orðið markmið en geta hins vegar falið í sér lausnir á því vandamáli eða þeirri breytingu sem við erum að horfast í augu við, þ.e. hvernig við bregðumst við þeim brjálæðislegu tæknibreytingum sem verða í hinum stafræna heimi. Þekking og uppfinningar vaxa núna með veldishraða og störfum mun fækka. Menn hafa auðvitað velt fyrir sér nokkrum leiðum sem geta þá komið til, borgaralaun eru þar á meðal. Milton Friedman talaði um neikvæðan tekjuskatt. Það eru ýmsar leiðir og ég er sammála því að það þarf að skoða þetta og velta því fyrir sér.

Ég er hins vegar ekki viss um að við séum komin á þann tímapunkt að við eigum að ráðast í þetta bara til að gera einhverjar tilraunir. Af því að við erum m.a. að ræða skattbreytingar held ég að það sé miklu brýnna að hugsa um með hvaða hætti skattar verða innheimtir í framtíðinni. Ef störf hverfa úr fyrirtækjum, ef fólk vinnur ekki í framtíðinni 40 tíma á viku heldur kannski bara fimm eða tíu eða enga, er alveg klárt að við þurfum að finna aðra tekjustofna. Þess vegna hafa ýmsar þjóðir, t.d. Bandaríkjamenn og Bretar, farið að velta fyrir sér hvort menn eigi hreinlega að fara að innheimta skatt frekar af framleiðslueiningu, af róbótunum sjálfum. Ég held að mikilvægasta áskorun okkar sé að fylgjast með, ekki gera neinar tilraunir heldur fylgjast með hvað er verið að skrifa og gera í þessum málum úti um allan heim. Það er eina leiðin sem við höfum til að tryggja að hið opinbera geti svo staðið undir samneyslunni og þá borgaralaunum sem afleiðingu.