148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[17:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Kærar þakkir fyrir þetta. Þú endaðir í rauninni á því sem ég var að velta fyrir mér, við vitum ekkert hvernig breytingin verður en við vitum að hún verður gríðarleg. Við þekkjum fyrstu iðnbyltinguna þar sem var líka veldisvöxtur í tækni með gufuvélinni. Við höfum séð ótrúlegar þjóðfélagsbreytingar, á einni öld fluttust nánast allir íbúar Bandaríkjanna í borgir úr sveitum. Við vitum líka núna að þessi vöxtur í stafræna heiminum er á veldishraða. Við erum komin í kúrfu sem fer bara lóðrétt upp þannig að við höfum ekki einu sinni mjög mikinn tíma til að velta fyrir okkur hvernig þetta verður og við verðum að vera á tánum, ég er sammála því.

En mig langar að biðja hv. þingmann að halda aðeins áfram þar sem hann endaði. Ég er sammála því að við þurfum að fara að velta fyrir okkur hvað verður skattlagt í framtíðinni. Hver á að verða réttmætur ágóði eigenda fyrirtækjanna? Hvað á að taka mikið af þeim til að geta borgað laun, borgaralaun eða annað, hvernig sem við tölum um það? Finnst hv. þingmanni ekki nauðsynlegt að við förum að ræða þessa hluti núna? Þessar breytingar gerum við ekki eftir á, það er alltaf erfiðara að gera afturvirkar breytingar og taka eitthvað af fólki sem það kannski hefur réttmætar væntingar um og telur sig geta átt.