148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í upphafi máls míns vil ég líka þakka kærlega fyrir ágætissamstarf innan nefndarinnar. Miðað við aðstæður, sem voru erfiðar og skammur tími, þá tek ég undir að samstarf innan nefndarinnar var tiltölulega gott. Hins vegar verð ég að lýsa yfir talsverðum vonbrigðum með þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram. Eins og hv. þingmaður áttar sig á og hlustaði á eins og ég, voru nánast allir hagsmunaaðilar sem komu á fund nefndarinnar neikvæðir gagnvart fjárlagafrumvarpinu. Það á ekki síst við þá sem starfa innan heilbrigðiskerfisins. Við sáum að forsvarsmenn Landspítalans voru mjög óánægðir hvað þetta frumvarp varðar, heilbrigðisstofnanir úti á landi sömuleiðis, og forsvarsmenn hjúkrunarheimila töluðu beinlínis um að þeir fengju lækkun á milli ára. Í umsögn Sjúkrahússins á Akureyri koma sömuleiðis fram miklar áhyggjur um að þetta frumvarp dygði ekki.

Nú kemur í ljós að meiri hluti fjárlaganefndar ætlar einungis að bæta 450 millj. kr. við í heilbrigðismálin, í það stóra mál sem þjóðin hefur verið að kalla eftir að við setjum meiri pening í. 450 millj. kr. eru 0,05% af ríkistekjum. Við mætum engan veginn þeirri þörf sem er í heilbrigðiskerfinu. Landspítalinn fær 0 kr. frá meiri hluta fjárlaganefndar. Heilbrigðisstofnanir úti á landi fá einungis helminginn af því sem þær kölluðu eftir bara til að halda sjó, til að halda óbreyttri starfsemi. Sjúkarhúsið á Akureyri fær 50 millj. kr. en kallaði eftir 400 millj. kr. Hjúkrunarheimilin fá ekkert frá meiri hluta fjárlaganefndar.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvernig stendur á því að meiri hluti fjárlaganefndar hlustar ekki á lykilhagsmunaaðila í því lykilmáli sem heilbrigðismálin eru? Flokkur formannsins var einmitt að kalla og sögðu að þau myndu standa fyrir stórsókn í þessu málum en ég bara sé ekki þessa stórsókn, hvorki í upprunalega frumvarpinu né í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar.