148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:06]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Lilja Alfreðsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stefna þessarar ríkisstjórnar í menntamálum er mjög metnaðarfull. Við sjáum það strax í nýjum fjárlögum og þá miklu aukningu sem þar er. Vöxturinn og aukningin á háskólastiginu er um 9,9%. Það er alveg ljóst að við erum að fara að ná OECD-meðaltalinu er varðar fjárframlög á hvern nemanda.

Við leggjum þó auðvitað ríka áherslu á að við fáum út úr því betri kennslu, auknar rannsóknir. Við eigum í mjög góðu samstarfi við háskólasamfélagið til þess að ná þessum metnaðarfullu markmiðum.

Ég fagna því þegar hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson nefnir það. Við sjáum líka að háskólaráð er mjög ánægt með framþróunina varðandi menntamálin. Það er líka alveg ljóst að ef við förum ekki í þá stórsókn sem ríkisstjórnin boðar varðandi menntamál verðum við hreinlega ekki samkeppnishæf á næstu misserum. Það er gríðarlega mikilvægt að við tökum höndum saman, allur þingheimur, og stefnum í rétta átt. Mér heyrist ég eiga marga liðsmenn hér.

Varðandi framhaldsskólastigið er líka mikil aukning þar. Þar er mesta aukning frá fjármálahruninu og fer rúmlega milljarður með verðlagsbótum inn í framhaldsskólana. Við erum að fara að gera úttekt á breyttu fyrirkomulagi og kanna hvaða áhrif stytting framhaldsskólans hefur. Ríkisstjórnin leggur líka stóraukna áherslu á verk- og starfsnám. Við munum sjá breytingar er varða framkvæmdir strax á næsta ári til þess að koma betur til móts við verknámsskólana.