148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[14:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Ólafur Ísleifsson) (Flf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka athugasemdir formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Willums Þórs Þórssonar. Varðandi öryrkjana er ekki af minni hálfu í þessu nefndaráliti eða í ræðu minni talað fyrir því að ráðast í kerfisbreytingu umsvifalaust. Allir vita að slíkt þarf að eiga sér eðlilegan aðdraganda. Það sem ég lagði hins vegar þyngsta áherslu á er að af hálfu stjórnvalda skuli haldið fast við þessi 4,7% svo mjög og ákveðið sem þau hafa verið gagnrýnd og það með rökum, m.a. þeim að þarna sé miðað við hækkun á vísitölu neysluverðs, svona lögð til grundvallar, frekar en launaþróun. Þá er auðvitað ástæða til að minna á það ákvæði í 69. gr. laga um almannatryggingar sem er alveg skýrt um þetta atriði en hefur verið notað, að einhverju leyti sá hluti þess sem er ekki alveg skýr, sem einhvers konar skálkaskjól til að komast undan kröfu um hækkun samkvæmt vísitölu neysluverðs.

Ég tek alveg undir með hv. þingmanni um húsnæðisliðinn að því leytinu til að hann er í fyrsta lagi heimagerð framleiðsla. Hann styðst ekki við alþjóðlega fyrirmynd. Reyndar er kannski ekki nein ein alþjóðleg fyrirmynd til. En það er auðvitað alveg nauðsynlegt að við lærum af reynslunni. Við megum ekki láta henda okkur áfram, að það séu stofnaðar kröfur á heimilin sem nema verðmæti þorskafla á Íslandsmiðum á hverju ári af því að þessi húsnæðisliður hækkar umfram aðra liði vísitölunnar þegar vísitalan almennt er að lækka, m.a. vegna stefnu (Forseti hringir.) meiri hlutans í borgarstjórn Reykjavíkur. Ég geri ekki ráð fyrir að hv. þingmaður sé hrifnari af þeirri stefnu en ég.