148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[18:26]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er sitt lítið af hverju og aðeins meira sums staðar en annars staðar í þessu fjárlagafrumvarpi, gott af sumu og ekki nóg af öðru. Það er ákveðið bland í poka sem ég notaði sem orðatiltæki í nefndaráliti mínu varðandi styrkumsóknir sem komu til fjárlaganefndar og voru samþykktar af meiri hluta og er dálítið erfitt að sjá hvar þær lenda í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Þetta veldur mér áhyggjum út af því hvernig fór með breytingartillögur fjárlaganefndar á síðasta ári þar sem fara átti ákveðinn peningur í samgöngumál og í ákveðin verkefni, en láðist að útskýra það í nefndaráliti eða á annan hátt. Ég velti fyrir mér hvernig ráðherra veit hvert þessir peningar eigi að fara sem var úthlutað í öll þessi smáu verkefni.