148. löggjafarþing — 9. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[22:49]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Virðulegi forseti. Ég greiði þessari tillögu að sjálfsögðu atkvæði mitt. Ég vonast til þess að fleiri þingmenn noti nú tækifærið, breyti litnum á töflunni og komi með á þessa tillögu því að um er að ræða, eins og fram kom hjá hv. þm. Birgi Þórarinssyni, gríðarlega góða samgöngubót sem þarf að fara í, þ.e. við þurfum að fá pening í hana. Þetta er hættulegur vegarkafli. Þarna varð slys síðast í morgun. Við höfum fengið áskoranir, sérstaklega man ég eftir að bæjarstjóri Hafnarfjarðar og fleiri hafi sent okkur áskorun um að bregðast við þessu hið snarasta.

Nú er tækifæri til þess, kæru þingmenn, ég tala ekki síst við þingmenn Suðvesturkjördæmis, að koma á græna takkann og koma þessu máli áfram. Komið með, grænt! [Hlátur í þingsal.]

(Forseti (SJS): Mér heyrist á hv. þingmanni að hann ætli að styðja (GBS: Og ég segi já.) tillöguna en geri þá greitt í að greiða atkvæði.)