148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breytingartillaga um hækkun barnabóta.

[10:54]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Nýju vinnubrögðin sem hv. þingmaður talar um snúast auðvitað um það líka hvernig er unnið innan nefndanna, sem ég nefndi hér áðan. Það hefur verið mjög mismunandi á undanförnum árum og það get ég vottað sjálf og hv. þingmaður þekkir það vafalaust líka af sinni þingreynslu að mjög mismunandi hefur verið hvernig unnið hefur verið innan nefnda. Ég tel að mikilvægt sé að innan nefndanna sé einmitt tekin þessi umræða um málefnin. Þar af leiðandi er eðlilegra þegar málin koma til afgreiðslu að búið sé að taka umræðu innan nefndanna um viðkomandi tillögur. Þar af leiðandi liggur líka fyrir að þegar verið er að gera tillögur um aukin útgjöld, að þær liggi fyrir hvað varðar fjármögnun og annað. Þar mælir hv. þingmaður væntanlega með því að það sé gengið á afganginn og horfið frá afkomumarkmiðum og þá erum við bara ekki sammála um þau hagstjórnarmarkmið.