148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Eins og hæstv. fjármálaráðherra gat um áðan hefur minni hlutinn á þinginu sýnt alveg hreint ótrúlegan samstarfsvilja gagnvart þessari nýju ríkisstjórn. Hér erum við að klára ný fjárlög á mettíma. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þakkirnar til minni hlutans.

En nú gefst meiri hlutanum tækifæri til að sýna að eitthvað hafi verið að marka allar yfirlýsingarnar um eflingu Alþingis. Ekki hefur verið mikið gert af því til þessa að sýna að nokkur einasta alvara hafi verið þar að baki en nú er það hægt og við metum það út frá því hvernig stjórnarliðar greiða atkvæði um breytingartillögur frá minni hlutanum. Þær eru ekki tillögur um umdeildar breytingar, þvert á móti allt tillögur sniðnar að því að reyna að ná fram því sem hefur verið sameiginlegur vilji miðað við yfirlýsingar stjórnarliða, sameiginlegur vilji meiri hluta og minni hluta á þinginu.

Við erum ekki að reyna að efna til átaka hér, við erum að leggja gott eitt til með tillögum sem eru sniðnar að því að ná fram sameiginlegum vilja á þinginu.