148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:44]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Að afgreiða þessi frumvörp á tveimur vikum er ekki endilega samstarfsatriði heldur fjallar það um að axla ábyrgð. Meiri hluti þingsins hefur ákveðið að taka þá ábyrgð að afgreiða fjárlög með þessum hætti, sem ég er ekki sammála að eigi að gera því að afgreiðslan er virkilega slæm. En á sama hátt og fólk tekur sér ábyrgð þarf það líka að axla ábyrgð. Ég kalla eftir því í framhaldinu að ábyrgð sé öxluð á þessu efni.

Við leggjum fram tillögur um hækkun á vaxtabótum og barnabótum, sem er í raun lagfæring á þeim kerfum eins og þau voru hönnuð í áttina að því sem upprunalega var lagt upp með. Nú er talað um rúma 10% hækkun og svo framvegis, sem er langt frá því að vera sú leiðrétting sem á þarf að halda ef miðað er við hvernig þau voru hugsuð upphaflega. Á sama tíma hefur kerfið um fjármál stjórnmálaflokkanna verið lagfært algerlega miðað við uppsetta áætlun, (Forseti hringir.) en þar varð 127% hækkun. Mér finnst undarlegt að þá sé ekki hægt á sama tíma að lagfæra þau kerfi sem (Forseti hringir.) varða tekjulægsta fólkið.