148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Mér heyrist helstu rök hjá hv. stjórnarþingmönnum fyrir því að styðja ekki hóflegar breytingartillögur frá minni hlutanum vera þau að ekki séu tillögur um fjármögnun á móti. Ég bendi bara á að þeir sömu hv. þingmenn voru ekki í vandræðum með að greiða atkvæði með tillögum hæstv. ríkisstjórnar sem ekki voru fjármagnaðar heldur var bara gengið á afganginn sem var búið að gera ráð fyrir í september sl. Það ætti ekki að vefjast fyrir fólki.

Ef það væri næg ástæða fyrir hv. stjórnarþingmenn til að setja fingurinn á græna hnappinn að hingað kæmu fjáröflunartillögur óska ég hér með eftir því að forseti geri hlé á þessum fundi meðan þær verða útbúnar.