148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[11:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég beið með að koma hingað upp þar til í lokin vegna þess að mig langaði til að virðulegi forseti tæki afstöðu til beiðninnar frá hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur um þann möguleika að gera hlé á fundinum ef það er það sem þarf til að bæta málið þannig að stjórnarmeirihlutinn geti sætt sig við, a.m.k. nógu margir þar innan búðar til að geta stutt málið, að koma fram með tillögur á blaði, sem ég geri ráð fyrir að minni hlutinn myndi væntanlega standa að sameiginlega.

Ef það lagaði málið og breytti atkvæðagreiðslunni finnst mér ábyrgðarhluti að í það minnsta gera grein fyrir því hvers vegna ekki er orðið við þeirri beiðni. Það er ekki komið hádegi, við höfum alveg tíma til þess. Þetta tæki ekki langan tíma en auðvitað ætla ég ekki að fara að segja virðulegum forseta fyrir verkum.

Ég sakna þess að tekin sé afstaða til þeirrar beiðni þannig að það sé skýrt hvers vegna henni sé hafnað í ljósi þess að svo virðist vera.