148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:06]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þá umræðu sem er hér í dag og var í gær líka um stöðu fólks og fátækt almennt. Ég vil líka ítreka það sem ég sagði í umræðum í gær að það stendur til, og kemur fram í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar, að fara í vinnu við að endurskoða stuðningskerfi, bæði barnabótakerfi og vaxtabótakerfi, með sérstaka áherslu á tekjulága og ungt fólk. Ég fagna því að vilji sé í þingsal til að koma að þeirri vinnu, því hefur verið lýst. Ég lýsti því í umræðum í gær að ég vildi eiga gott samráð og samstarf við þingið þegar sú vinna færi af stað. Um leið og ég segi nei við þessari tillögu fagna ég þannig þeim vilja stjórnarandstöðunnar og þingmanna allra til að koma að vinnunni, sem eins og ég sagði í gær, verður sett af stað strax í byrjun nýs árs.