148. löggjafarþing — 12. fundur,  29. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[12:32]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Sú litla breyting sem hér er gerð tillaga um felur í sér einfalda leiðréttingu á því sem virðast hafa verið mistök við breytingu á lögum um tekjuskatt í tilefni af dómum Hæstaréttar árið 2010, um ólögmæti gengistryggingar lánsfjár. Gert var ráð fyrir því að vextir sem ákvarðaðir yrðu á inneign skuldar vegna ofgreiðslu af gengistryggðu láni skyldu ekki teljast til skattskyldra fjármagnstekna og yrðu þar af leiðandi undanþegnir fjármagnstekjuskatti. Af einhverjum ástæðum var gildistími þessa ákvæðis einskorðaður við tekjuárin 2010–2011. Hér er lagt til að sú takmörkun verði felld niður, einfaldlega til að gæta samræmis og jafnræðis gagnvart skattborgurum landsins. Síðan er lagt til, sem sjálfsagt er, að miðað verði þar sem við á við ákvæði laga um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda við uppgjör á slíkum málum.