148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[16:02]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að nánast allir sem taka þátt í stjórnmálum telji sig vera að vinna í þágu almennings og vinna eftir einhverri stefnu sem þjóni hagsmunum almennings. Ég tel að menn reyni að minnsta kosti að sannfæra sjálfa sig um það. En við höfum líka séð að stefna skiptir máli. Sum stefna virkar og kemur sér vel fyrir almenning, önnur stefna er beinlínis stórhættuleg.

Hvað varðar spurninguna um hugsanlegar tafir á framkvæmdum hef ég lýst þeirri skoðun minni alveg frá því að ég byrjaði að tjá mig um þetta mál sem forsætisráðherra, að ég vildi ekki valda töfum á nauðsynlegum framkvæmdum við Hringbraut, t.d. nauðsynlegu viðhaldi, þó að ég benti á mikilvægi þess að endurskoða þau áform. Það á að sjálfsögðu ekki við um meðferðarkjarnann, þ.e. hinn eiginlega nýja spítala. Við förum ekki að byrja á honum ef við erum á sama tíma að endurskoða hvar við ætlum að byggja hann. Þegar búið er að steypa sökkulinn og byrjað að byggja er erfitt að flytja það allt saman á nýjan stað, þannig að þetta er ákaflega brýnt mál.

Svo ég taki þetta nú saman í tiltölulega stutt svar, herra forseti, mun að sjálfsögðu áfram þurfa viðhaldsframkvæmdir við Hringbraut. Það þarf að klára sjúkrahótelið. Og það mun jafnvel þurfa að fara í framkvæmdir við Hringbraut eftir að framkvæmdir hefjast á nýjum stað. En við förum að sjálfsögðu ekki í að byrja að byggja nýjan spítala til þess eins að hætta svo við það.