148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Í ræðu minni áðan vitnaði ég í starfsmann Landspítalans sem sagði mér að það tæki 20 mínútur að fara af bílastæði Landspítalans eftir dagvakt klukkan fjögur og út á Snorrabraut. Ég geri ráð fyrir að með þeim hraðreinum sem hv. þingmaður vitnar í sé hann að vitna í m.a. steypuklumpana á Miklubrautinni sem þarf að rífa niður núna aftur, sem mér sýnist nú ekki að flýti fyrir nokkurri einustu umferð neins staðar. En menn koma nú annars staðar að þessum spítala en um Miklubrautina, menn koma líka sunnan að, þ.e. frá Suðurnesjum með sjúklinga og fleira. Menn koma líka ofan úr efri byggðum Reykjavíkur. Hvernig á að leysa það ef ekki með því að færa sjúkrahúsið nær miðjunni, nær miðju íbúðabyggðar, nær samgöngumiðju, nær miðju þess sem er áhrifasvæði sjúkrahússins í stað þess að byggja það á því sem nú er að verða útnes?