148. löggjafarþing — 18. fundur,  30. jan. 2018.

óháð, fagleg staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

88. mál
[17:17]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spurði hvort búið væri að leysa úr samgöngumálunum. Svarið við því er nei, en það er verið að því. Hv. þingmanni er náttúrlega fullkunnugt um það alveg eins og mér að slík vinna er í gangi. Við vitum að Landspítalinn verður við Hringbraut næstu a.m.k. sex til sjö árin sama hvað við ákveðum að gera í dag eða á næstunni. Ég hef nú þá trú á borgaryfirvöldum og yfirvöldum samgöngumála að úr þessum málum verði leyst á þessum tíma. Við skulum líka átta okkur á því, hv. þingmaður, að með því að taka endanlega ákvörðun um staðarval við Hringbraut, eins og ég hélt raunar að við værum löngu búin að, þá mun þrýstingur á samgönguyfirvöld og á borgaryfirvöld aukast enn frekar um að klára það dæmi og leysa úr því. Það er alveg hægt. Til eru umferðarlíkön af því alveg eins og það eru til umferðarlíkön af því hvað þetta getur verið erfitt. Ég held að við eigum að einhenda okkur í það verkefni.