148. löggjafarþing — 19. fundur,  31. jan. 2018.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég ætla að gera að umtalsefni atvinnuþátttöku fatlaðra. Ég tel fyllsta efni til að ræða hér m.a. fund sem haldinn var fyrr í dag varðandi embættisfærslur dómsmálaráðherra en ég bíð betri tíma til þess. Ég hvet stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til þess að halda áfram sinni mikilvægu vinnu. Það er líka, talandi um ábyrgð þingsins, mikilvægt núna í ljósi nýjustu upplýsinga að þingið haldi áfram með málið og beini því m.a. síðan áfram til umboðsmanns Alþingis sem greinilega er byrjaður að taka málið upp. Ég tel þær upplýsingar sem hafa verið settar fram á fundinum fyrr í dag vera miklu meira en umhugsunarefni og vil hér í pontu lýsa yfir fyllsta stuðningi við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd til að fylgja þessu máli eftir, að það verði upplýst, þannig að við fáum alveg á hreint hvernig málum var hagað. Ég tel brýnt og mikilvægt að sú vinna fái að halda áfram og kem hugsanlega á eftir upp um það.

Ég vildi vekja sérstaka athygli á atvinnuþátttöku fatlaðra og því sem stendur m.a. í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar en þar er sem betur fer rætt nokkuð mikið um að það eigi að vera samráð við Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp til að efla samfélagsþátttöku fatlaðra, tryggja framfærslu örorkulífeyrisþega, og ég heyrði í síðustu viku að endurskoða ætti m.a. krónu á móti krónu regluna. Við erum öll sammála um að það beri að endurskoða hana og helst afnema. Mér heyrist ekki síst stjórnarþingmenn vera því hlynntir og vil hvetja þá til dáða.

Ég vil líka hvetja forseta þingsins sem er í sama flokki og forsætisráðherra til að beina því til forsætisráðherra að móta strax reglur um hvernig hægt er að byggja undir hlutastörf hjá hinu opinbera og að Stjórnarráðið og ekki síst ráðuneytin — ég reyndi á þeim skamma tíma sem ég var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að taka á móti fötluðu fólki til að veita því innsýn í bæði störf ráðuneytisins og þeirra stofnana sem þar eru — verði (Forseti hringir.) í fararbroddi við að setja á laggirnar reglur sem umfaðma fólk (Forseti hringir.) sem er með fatlanir með því að fjölga hlutastörfum og auka þannig möguleika fatlaðs fólks til samfélagslegrar þátttöku.